Elva björk framkvæmdi hjartahnoð á 1 árs dóttur sinni: „ég bað til guðs að taka hana ekki frá mér“

Elva Björk Sigurðardóttir upplifði hræðilega martröð þegar Birta eins árs gömul dóttir hennar fékk skyndilega mikinn hitakrampa og missti meðvitund.

„Birta var ekki lasin og ekki með neinn hita. Á sekúndu broti sýndi hún allt í einu mikil þreytu einkenni, augun hálflokuð og hún svaraði ekki áreiti. Úr því galopnuðust augun og titruðu, hún rétti fram hendur og stífnaði öll,“ segir Elva Björk en í samtali við Hringbraut segist hún vilja vekja athygli annara foreldra á atvikinu.

Bað til Guðs að taka hana ekki frá sér

„Ég vildi að ég hefði fengið einhverja fræðslu um þetta eða vitneskju,“ segir hún.

Elva Björk og maðurinn hennar keyrðu strax af stað með dóttur sína niður á spítala en á leiðinni þurfti Elva að taka hana úr bílstólnum og halda á henni þar sem ástandið á henni versnaði fljótt.

„Hún hætti að anda og blánaði öll í andlitinu. Ég hélt henni á hlið og sló á bakið hennar. Hnoðaði svo litla hjartað og blés í munninn hennar þess á milli meðan ég bað til guðs að taka hana ekki frá mér. Ég hélt að litli demanturinn okkar væri að yfirgefa okkur. Eftir rúmar 2 mínútur í krampa byrjaði hún að anda aftur, og við þá rétt ókomin á spítalann,“ sagði Elva en krampinn sem Birta fékk gerði ekkert boð á undan sér.

Á spítalanum mældist Birta með hita og var fjölskyldan í kjölfarið send á barnaspítalann undir betra eftirlit.

\"\"

„Þegar hún jafnaði sig eftir þetta varð hún fljótt lík sjálfri sér aftur. Var með hita í rúman sólarhring og svo bara hress. Hún hefur ekki fengið þetta aftur en ég held að það sé algengast að börn fái þetta bara einu sinni. Okkur var boðin viðtalstími á barnaspítalanum hjá yndislegum hjúkrunarfræðing sem sérhæfir sig í þessu. Hún sagði við okkur að best væri að leggja hana útaf ef þetta kæmi fyrir aftur. Setja hana á hlið, leyfa krampanum að líða hjá og tala rólega til hennar þar sem heyrnin er það fyrsta sem kemur til baka,“ segir Elva Björk.

Algengast hjá börnum þegar hitinn ríkur skyndilega upp

Á barnaspítalanum fengu þau einnig að vita að svona hitakrampi geti verið arfgengur en að það þurfi ekki að vera í öllum tilfellum.

„Bæði ég og pabbi hennar fengum þetta og það róaði mig að vita það þar sem við erum alveg heil í dag þrátt fyrir þetta. Við fengum einnig þær upplýsingar að það er víst algengast að þetta gerist hjá börnum þegar hitinn ríkur svona skyndilega upp, það er að segja í byrjun veikinda. Sem var einmitt málið hjá Birtu.“

Elva Björk segist þakklát fyrir það hversu fljótt fjölskyldan komst undir verndarvæng fagfólks og er það hennar einlæga von að aðrir foreldrar eða umsjónarmenn barna kynni sér einkenni og meðhöndlun hitakrampa vel.

„Því hann getur komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Hvar sem er.“