Elsku tengdamamma þó ég hafi aldrei fengið að hitta þig þá sakna ég þín samt

Á morgun, þann 11. október á ég afmæli. Ég verð þrjátíu og tveggja ára gömul. Á morgun er líka bleiki dagurinn. Dagurinn sem við styðjum brjóstakrabbamein kvenna.

Það er ekki að ástæðu lausu að í dag skuli ég hafa sest niður og hugsað út í þessar staðreyndir. Í dag, þann 10. október hefði tengdamóðir mín orðið 53 ára gömul hefði hún fengið að lifa krabbameinið af. Hún tapaði baráttunni aðeins 36 ára gömul. Fjórum árum eldri en ég er nú.

\"\"

Erna Rós Hafsteinsdóttir / Tengdamóðir mín heitin

Ég fékk aldrei að hitta hana en þrátt fyrir það þykir mér svo ótrúlega vænt um hana. Bæði ég og maðurinn minn tölum reglulega um ömmu Ernu við börnin okkar sem eru að verða fimm og sex ára, en samkvæmt skilningi þeirra beggja þá ER amma Erna 53 ára í dag. Maður heldur nefnilega að sjálfsögðu upp á afmælið sitt þó maður sé dáinn.

Á afmælisdegi mínum fyrir þremur árum síðan upplifði ég mikinn missi yfir því að hafa tengdamömmu ekki hjá mér. Ég var ung móðir með tvö lítil börn sem gerðu ýmis prakkarastrik sem mig langaði svo að geta sagt henni frá. Ég settist niður þennan dag og skrifaði bréf til hennar:

„Elsku tengdamamma.

Takk.

Þú gafst mér svo stóra gjöf, þá allra stærstu. Vegna þín fékk ég manninn sem gaf mér börnin okkar.

Börnin okkar eru ekki alltaf auðveld, stundum eru þau mjög erfið. En þau eru alltaf það dásamlegasta sem ég hef nokkurn tímann fengið að eiga.

Gæfustundirnar hafa verið margar. Fyrsta brosið, fyrsti hláturinn, fyrstu skrefin og fyrsta koppa ferðin. Ógæfustundirnar hafa líka verið nokkrar. Frekjukast í búðinni, piss yfir allan sófann og ís í morgunmat.

 Ég vildi óska þess að ég gæti hringt í þig og við gætum glaðst saman yfir þeim góðu. Ég vildi óska þess að ég gæti fengið ráð hjá þér varðandi þær verri.

Mikið vildi ég geta glott með þér yfir gömlum myndaalbúmum og fengið að heyra allar sögurnar sem þú hafðir að segja.

Ég var ekki svo heppin að fá að kynnast þér. Samt líður mér eins og ég hafi alltaf þekkt þig. Dásamlegu synir þínir og fjölskylda kunna svo sannarlega að segja frá þér enda hefur þú verið engri lík.

\"\"

Fjölskyldan mín 

Ég er svo heppin að eiga stórkostlega mömmu sjálf sem ég sé mig ekki geta lifað án, ásamt því er ég svo lukkuleg að hafa nýlega eignast frábæra fóstur-tengdamömmu sem tekið hefur ömmu starfinu á ótrúlegan hátt. Ég veit þú myndir vera þakklát og glöð með hversu vel fer um fjölskylduna sem þú skildir við.

Þrátt fyrir að við höfum aldrei hist þá hugsa ég reglulega til þín, ég sé þig fyrir mér gleðjast yfir barnabörnunum og þeirra uppátækjum. Ég sé þig fyrir mér hrista hausinn þegar ég segi þér að Óttar setji óhreina tauið við hliðina á körfunni en ekki ofaní hana. Ég sé fyrir mér það góða vinkonu samband sem við hefðum átt. Jólakökubaksturinn og afmælisundirbúningana.

Þú veist það ekki, en við ólumst upp í sama húsi. Við deilum líka næstum því afmælisdegi og við eigum það sameiginlegt að elska sama fólkið.

Í gær hefðir þú orðið 50 ára og þó að ég hafi ekki fengið að hitta þig þá sakna ég þín samt.

Fyrir mér ert þú svo mikið. Þú ert fyrirmynd sem ég lít upp til. Fyrir þig er ég þakklát.“

Elsku tengdamamma, til hamingju með afmælið í dag.

Kæru íslendingar, styðjum þá sem þurfa á því að halda í baráttunni á morgun, sem og alla aðra daga.

Aníta Estíva Harðardóttir, blaðakona á Hringbraut.