María Gomez er mikill fagurkeri og á einstaklega fallegt og fágað heimili. María á og rekur vefsíðuna paz.is og instagram reikninginn @paz.is þar sem hún sýnir meðal annars innblásnar heimilishugmyndir. Á miðlunum sínum fær hún útrás fyrir allt það sem henni þykir gaman að gera. María og Ragnar Már, eiginmaður hennar, hafa undanfarið staðið í allsherjar framkvæmdum á heimilinu og útkoman er hin glæsilegasta. Í þættinum Matur og Heimili í kvöld heimsækir Sjöfn Þórðar Maríu heim í Garðabæinn þar sem María segir frá framkvæmdunum og sýnir útkomuna.
„Þegar við keyptum húsið fórum við í allsherjar framkvæmdir og vorum með visst lúkk í huga. Ég hef alltaf elskað rómantískan stíl eins og loftlista, þykka gólflista, franskar hurðir og þess háttar, og hef haft þann stíl síðan ég man eftir mér. Planið var að setja upp lista í þessu húsi, og vorum við búin að kaupa allt til verksins fyrir framkvæmdirnar, en við komumst þó ekki lengra en að setja upp loft- og gólflista ásamt franskri hurð. Planið var líka að setja upp lista á veggina en þeir listar enduðu heillengi úti í bílskúr. Það var svo ekki fyrr en nú, einu og hálfu ári seinna, að við hentum þeim loksins upp og breytti það algjörlega heildarmynd og stemningu hússins,“ segir María sem er alsæl með að nú sé loksins farið að sjá fyrir endann á framkvæmdunum.
Þegar kom að því að útbúa barnaherbergin fannst Maríu mikilvægt að þau yrðu persónuleg og griðastaður barnanna. „Börnin voru frekar ósátt við flutninginn á sínum tíma og að þurfa að skipta um skóla, því fannst mér mikilvægt að gera herbergin þeirra að hlýju athvarfi þar sem áhugamálum þeirra væri mætt ásamt því að gera herbergin í takt við þeirra karakter.“ Þegar kom að því að velja liti, hirslur og hluti inn í herbergin hafði María börnin eitthvað með í ráðum og leyfði persónuleika þeirra að skína í gegn.
Húsgögnin í herbergi heimasætunnar fanga augað og eru einstaklega prinsessuleg ef svo má að orði komast. „Þau keypti ég notuð og aldargömul á Bland. Ég ákvað að lakka þau og gefa þeim nýtt útlit sem heppnaðist svona glimrandi vel. Húsgögnunum fylgdu líka tvö náttborð sem ég lakkaði í stíl við húsgögnin í hjónaherberginu og smellpassa þar inn.
Missið ekki af áhugaverðu innliti Sjafnar inn á fágaða og fallega heimili Maríu í þættinum Matur og Heimili á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.
Hægt er að sjá brot úr þættinum hér fyrir neðan: