Föstudagskvöld eru gjarnan kvöldin sem fjölskyldan kemur saman í eldhúsinu og nýtur þess að eiga góða samverustund við eldamennskuna. Eva Dögg Sigurgeirsdóttir er fjögurra barna móðir og nýtur þess að elda með börnum sínum og eiga með þeim gæðastundir yfir matnum. Í sumar eignaðist fjölskyldan pítsaofn sem þau nota utandyra og hefur heldur betur slegið í gegn hjá fjölskyldunni. Eftir að pítsaofninn kom í hús eru pítsakvöld minnst einu sinni í viku eða oftar enda nýtist pítsaofninn allan ársins hring. Sjöfn Þórðar heimsækir Evu Dögg og tvo syni hennar, Bjarna Gabríel og Viktor Áka og fær að fylgjast með þeim í pítsabakstrinum.
Strákarnir segjast elska að baka pítsur og njóta þess að taka þátt í pítsagerðinni með mömmu sinni. „Mamma er líka orðin snillingur með pítsaspaðann,“segir Bjarni Gabríel. Viktor Áki heldur mikið uppá pítsur með skinku og miklum osti. „Svo þykir mér pítsa með nutella og jarðaberjum rosaleg góð,“segir Viktor Áki og bíður spenntur eftir eftirrétta pítsunni sinni.
„Við fjölskyldan höfum ávallt búið okkur til tíma til að elda saman og að baka pítsur með strákunum er eitt það skemmtilegasta sem ég geri eftir að við fengum þennan snilldar Bertello pítsaofn. Það er svo ljúffengt að fá eldbakaðar pítsur sem tekur einungis um eina til þrjá mínútur að baka,“segir Eva Dögg sem er orðin eldklár með pítsaspaðann við hönd.
Missið ekki af skemmtilegri upplifun Sjafnar með Evu Dögg og sonum hennar við pítsabaksturinn í þættinum Matur & Heimili á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.