Listakonan Ellý Ármanns opnar sig um persónuleg málefni í nýjum þætti af podcasi Sölva Tryggvasonar. Hún greinir meðal annars frá því að hún hafi ekki talað við eigin son í fjögur ár, eftir að hún rak hann að heiman.
Fjallað er um málið á vef Mbl.is.
„Nú fer ég að hugsa um hin son minn sem talar ekki við mig. Hann lokaði á mig og ég er ekki búin að heyra í honum í fjögur ár. Ég rak hann að heiman. Ég var ekki góðu jafnvægi sjálf á þessum tíma og hann fór út af réttri braut og ég rak barnið mitt í burtu að heiman af því að hann var að gera hluti sem hann átti ekki að gera.“
„Mig langar mjög mikið að heyra í honum og ég reyni reglulega að senda honum skilaboð eða ná til hans, en hann vill ekki tala við mig.“ segir Ellý sem segist verða að treysta á allt sé eins og það eigi að vera hjá drengnum sem á heima hjá föður sínum. „Ég get farið undir sæng og grátið, en hann býr hjá pabba sínum og ég verð bara að treysta því að allt sé eins og það á að vera.“
Ellý viðurkennir að hún sjái eftir því að hafa rekið drenginn sinn af heimilinu, en segist vonast til þess að þau geti átt góð samskipti sín á milli í framtíðinni.
„Ég sé auðvitað eftir þessu og ég elska barnið mitt af öllu hjarta. Ég veit að hann er að læra, en hann er reiður. Ég verð að líta á þetta sem lærdóm og treysti því að við munum ná saman. En ég stýri því ekki hvort það gerist eftir viku eða 10 ár. En ég vona að hann viti af mér og að ég vilji ekkert meira en að við munum aftur eiga heilbrigð og góð samskipti.”