Nú slær Ellert enn eitt metið enda annálaður keppnismaður. Hann er kominn á Alþingi sem varamaður í þetta sinn. Fyrst var Ellert Schram kjörinn á þing fyrir 47 árum og þá fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann hafði verið forystumaður ungra sjálfstæðismanna, m.a. formaður SUS næstur á undan Friðriki Sophussyni.
Ellert varð viðskila við Sjálfstæðisflokkinn langt á undan mér. En hvað ég skil hann! Ellert var bara langt á undan mér að fatta það að flokkurinn var ekki lengur sá flokkur sem við gengum í meðan „mannúð og mildi“ réðu ríkjum og ekki var búið að finna upp Hannes Hólmstein og frjálshyggjuna.
Þó ég sé alinn upp í Hlíðunum og sé Valsari Eins og Brynjar Níelsson, þá hef ég alltaf borið vissa virðingu fyrir þessum helstu andstæðingum okkar í KR, einkum þó forystumönnum félagsins eins og Ellert, Sveini Jónssyni, Gunnari Fel og Kidda prentara. Þetta eru menn sem hafa borið félagið uppi eins og fjölmargir góðir menn hafa gert hjá okkur í Val, allt frá Séra Friðrik.
En víkjum að Ellert stjórnmálamanni aftur. Hann kemur nú inn á þingið efti 47 ár, lífsreyndur, yfirvegaður og vitur. Það er að sönnu þörf fyrir slíkt fólk á Alþingi núna. Það vantar yfirvegun í þingstörfin og þingmennina. Allir vita að sumir af gömlu þingmönnunum læddu sér stundum út á hádegisbarinn á Hótel Borg og fengu sér „einn“ með skáldum, blaðamönnum og rónum bæjarsins. Og svo fóru þeir bara aftur í innivinnuna sína í þinginu. Engum sögum fer að klámi og óþverra þar.
Ellert Schram er gott dæmi um mann sem heldur sér í formi og er jafnoki þeirra sem eru mun yngri. Hann hefur reynsluna og þroskann fram yfir þá. Hann minnir aðeins á helsta mann viðskiptlífsins í heiminum sem allir fjárfestar dýrka. Ég er að tala um Warren Buffet. Hann er níræður og hefur aldrei verið skarpari í fjárfestingum sínum en einmitt núna.
Í þinginu verður Ellert eins og Warren.
Rtá.