Í þættinum Matur og heimili í kvöld heimsækir Sjöfn Þórðar, Elísu Viðarsdóttir landsliðskonu í knattspyrnu heim í eldhúsið þar sem þær ræða verkefni Elísu og framtíðarplön. Elísa er mikil áhugamanneskja um mat og notar matargerðina sem sína hugleiðslu. Hún hefur verið með marga bolta á lofti og hefur svo sannarlega náð að samtvinna ástríðu sína fyrir matargerð, vinnu og knattspyrnuiðkun með góðri útkomu.
„Ég hef nýtt tímann vel undanfarin ár og kláraði meistaranám í næringarfræði árið 2018. Eftir að meistaranáminu lauk fannst mér ég ekki geta sett punktinn fyrir aftan það og fann köllun til þess að gefa meira af mér, bæði með mína reynslu sem afreksíþróttakona og með þekkinguna í bakpokanum. Þá spratt upp sú hugmynd að gefa út bók, Næringin skapar meistarann sem er fræðslubók með uppskriftum og reynslusögum íþróttamanna sem hafa náð langt í sinni íþrótt. Hvað maturinn hefur spilað stórt hlutverk í þeirra lífi sem íþróttamenn,“ segir Elísa.
Elísa er hvergi nærri hætt að nýta reynslu sína og þekkingu til að gefa en meira af sér og ljóstrar því upp sem framundan er hjá henni á næstunni.
Í eldhúsinu blómstrar ástríða Elísu í matargerðinni og í tilefni heimsóknarinnar býður hún Sjöfn upp á einn af sínum uppáhalds réttum sem hún segir að slái ávallt í gegn hjá allri fjölskyldunni.
Missið ekki af skemmtilegu og fræðandi innliti Sjafnar í eldhúsið til Elísu á þættinum Matur og Heimili á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.
Brot úr þætti kvöldsins má sjá hér: