Alþingismaðurinn Elín Hirt talaði skemmstan tíma allra þingmanna á því þingi sem lauk í síðustu viku eftir 10 mánaða törn. Allan þennan tíma lét hún nægja að tala í 111 mínútur úr ræðustól Alþingis. Þingmaðurinn hefur greinilega ekki mikið til málanna að leggja. Steingrímur J. hafði mest að segja, talaði í 2.419 mínútur alls eða 22 sinnum lengur en Elín.
Laun þingmanna eru ekki mæld eftir töluðu orði. Vinnuframlagið er greinilega æði misjafnt en venjulegir þingmenn fá um 700 þúsund kr. á mánuði í laun, alveg óháð vinnuframlagi. Úr því Elín fékk 700 þúsund á mánuði fyrir sitt rýra framlag, þá vill Náttfari ekki reikna út hvað hefði þurft að borga Steingrími ef í gildi væri bónusfyrirkomulag í þinginu sem mældi þingmönnum tekjur eftir orðaflaumi þeirra.
Þeir sem minnst töluðu í þinginu, frá 111 mínútum og upp í 131 mínútu frá 1. september í fyrra ( að jafnaði um 3 mínútur á viku) eiga það sammerkt að vera allir nýliðar á þingi og þeir koma úr stjórnrflokkunum, Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Lítið hefur farið fyrir þessu fólki í þinginu enda hefur ekkert þeirra mikið til málanna að leggja. Mér er mjög til efs að kjósendur muni eftir því að þetta fólk hafi verið kjörið á þing. Alla vega má efast um að það hafi verið góð ákvörðun að senda þau þangað. Hér er um að ræða, auk Elínar, þau Harald Einarsson, Þórunni Egilsdóttur, Brynjar Níelsson og Valgerði Gunnarsdóttur.
Það vakti því athygli þegar Elín Hirst lét hafa eftir sér í fjölmiðlum um helgina að “umræðuhefðinni” yrði að breyta á Alþingi hið snarasta. Ber að skilja orð hennar þannig að hún sé að leggja sitt af mörkum til breyttrar umræðuhefðar í þinginu með því að þegja í heilan vetur?
Víst er að margir myndu fagna breyttri umræðuhefð á Alþingi sem gengi út á að þingmenn segðu sem minnst. Þá væri hægt að stytta þingið verulega og helst að hafa þingmennskuna sem aukastarf með vinnu út í þjóðfélaginu. Þá gætu þingmenn komið saman dagpart í viku hverri og þagað saman í þinginu, nema að hver og einn tæki til máls í 3 mínútur á viku. Þannig væri unnt að ljúka þingstörfum á einum eftirmiðdegi og fólk gæti svo unnið sína vinnu úti í samfélaginu þess á milli.
Ætla má að þingmenn yrðu þá í mun betri tengslum við kjósendur og lífið í landinu í stað þess að dvelja langtímum saman inni í þinghúsinu við innihaldslítið karp í fílabeinsturni valdhrokans.
Elín sagðist aldrei hafa kynnst eins vondu andrúmslofti á vinnustað eins og þarna.
Með því að stytta umræðurnar svona, hefta málæðið og losa þing og þjóð við öll leiðindin, gæti niðurstaðan orðið sú að Elín Hirst hefi ekki verið kjörin á þing til einskis, þrátt fyrir allt.