Eldra fólk: minni en betri skammtar

„Næringarefnaþörf okkar, það er þörf okkar fyrir vítamín, steinefni og trefjar, breytist lítið með aldrinum og er nánast sú sama út lífið. Orkuþörfin minnkar aftur á móti með aldrinum.\"

Þetta segir Óla Kallý Magnúsdóttir næringarfræðingur hjá Heilsuborg á heilsuvefnum lifdununa.is þegar hún er spurð hvort næringarþörf fólks breytist með hækkandi aldri: \"Þetta þýðir að öll næringarefni þurfa að vera til staðar í minni fæðuskömmtum og þá er ekki mikið pláss fyrir sætindi og næringarsnauðan mat,\" bendir hún enn fremur á og bætir við: \"Þörfin fyrir mjög góðan og næringarríkan mat er aftur á móti meiri“, segir hún.

Óla Kallý hefur sérhæft sig í næringarmeðferð fyrir einstaklinga með sykursýki en hún hefur líka unnið mikið með öldruðum og fólki sem er of feitt eða of þungt. Hún lauk meistaraprófi í næringafræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og doktorsprófi frá sama skóla árið 2014. Óla Kallý segir að orkuþörf fólks minnki með aldrinum, um 2,5-5% á hverjum áratug eftir 50 ára. „Ástæðan er vöðvarýrnun, minni hreyfing og fleira. Þetta þýðir að við þurfum minni, en næringarríkari skammta. Orkuþörf, þörfin fyrir hitaeiningar, er einstaklingsbundin,“ segir hún.