Ólafur Arnarson, nýkjörinn formaður Neytendasamtakanna var ómyrkur í máli í garð krónunnar í sjónvarpsþættinum Eldlínunni á Hringbraut í gærkvöld og sagði hana vera meginorsök fyrir því að kjör heimilanna væru verri á Íslandi en í nágrannalöndunum.
Hann sagði að í raun og sann sætu landsmenn uppi með krónuskatt sem þeir yrðu að borga hvort sem þeim líkaði betur eða verr, ólíkt því sem þekktist í þeim löndum sem Ísland vill helst og oftast bera sig saman við, en þar séu vextir á allt öðru plani en hér þekktist og verðtrygging vitaskuld óþekkt, svo sem á húsnæðislánum sem vörðuðu að meðaltali fjórðung af útgjöldum heimilanna.
Hann sagði þennan umframkostnað heimilanna á Íslandi ekki myndi hverfa nema að annar gjaldmiðill yrði tekinn upp hér á landi, en fram að því mætti hugsa sér að tengja krónuna við aðra mynt, líkt og Danir gerðu með sína krónu; það væri vel framkvæmanlegt utan fullrar þátttöku í ESB en krefðist þó mun meiri aga í hagstjórn en hér á landi hefði verið rekin. Þá yrði og að taka á landbúnaðarkerfinu og liðka til fyrir innflutningi ódýrrar matvöru án þess þó að láta af styrkjum til hefðbundins landbúnaðar hér á landi.
Ólafur gagnrýndi líka fákeppni á matvörumarkaði og einkum og sér í lagi á bankamarkaði, en þar væri vandinn sá að enginn erlend samkeppni væri möguleg á meðan krónan væri við lýði; það tæki enginn útlenskur banki áhættuna af því skrýtna krónuhagkerfi sem hér væri við lýði.
Með Ólafi í þættinum var Henný Hinz, aðalhagfræðingur Alþýðusambands Íslands sem tók að mörgu leyti undir ádeilu Ólafs á íslenska hagstjórn og veikan gjaldmiðil sem stæði íslenskum heimilum fyrir þrifum.
Eldlínan heldur áfram í kvöld klukkan 23:00 en þá verður staða fyrirtækjanna á Íslandi tekin fyrir með þeim Almari Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, Andrési Magnússyni, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu og Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda.
Annaðkvöld á sama tíma verður svo staða flokkakerfisins tekin fyrir í Eldlínunni.