Ekta Canneloni sem fjölskyldan elskar

Pastaréttir eru ekta fjölskylduréttir og eiga vel við þegar haustið og hefðbundin rútína er um garð gengin. Það skemmtilega við pastarétti er að það er hægt að útfæra þá með ýmsum hætti. Berglind Hreiðars köku- og matarbloggari með meiru sem heldur úti síðunni Gotterí og gersemar er iðin að útbúa sælkerarétti fyrir fjölskylduna og hér er hún með eina útfærsluna af ljúffengum Canneloni pastarétti sem steinliggur.

„Hver elskar ekki pastarétti, lasagna, hakk og spaghetti og þar fram eftir götunum? Slíkir réttir eru fullkomnir í miðri viku og eru afar fjölskylduvænir að mínu mati. Canneloni er útfærsla af pastarétti sem ég hef ekki prófað að gera áður og skemmtilegt að breyta aðeins til. Hér kemur súpereinföld uppskrift sem allir í fjölskyldunni elskuðu,“segir Berglind og var alsæl með útkomuna. „Þetta eru í raun bara lasagnaplötur sem búið er að setja hakk inn í og rúlla upp, síðan fer sósa og ostur yfir.“

M&H Conneloni.jpeg

Canneloni

500 g nautahakk

½ laukur (saxaður)

2 hvítlauksrif (söxuð)

2 pakkar ferskar lasagnaplötur

1 poki Toro bolognese sósa með hvítlauk/eða gerið ykkar eigin frá grunni

400 ml vatn

Um 200 g Mascarpone ostur

Kirsuberjatómatar og basilíka

Bezt á allt krydd

Ólífuolía

  1. Hitið ofninn í 200°C.
  2. Byrjið á því að steikja hakk, lauk og hvítlauk upp úr ólífuolíu og krydda eftir smekk.
  3. Skerið næst niður 10 einingar af lasagnaplötum og skiptið nautahakkinu á milli þeirra.
  4. Rúllið hverri lasagnaplötu fyrir sig upp og raðið í eldfast mót sem búið er að smyrja að innan með matarolíu.
  5. Hitið næst vatnið á pönnunni og hrærið Bolognese duftinu saman við svo úr verði ljúffeng pastasósa.
  6. Hellið sósunni jafnt yfir upprúlluðu lasagnaplöturnar og bakið í ofninum í um 20 mínútur, takið þá út, setjið Mascarpone ostinn yfir og aftur í ofninn í um 5 mínútur.

Berið falleg fram á borð og njótið vel.

M&H Canneloni 2.jpeg

Svo ljúffengt og einstaklega einfalt að framreiða./Ljósmyndir Berglind Hreiðars.