Elísabet Metta Svan Ásgeirsdóttir og kærasti hennar Ágúst Freyr Hallsson eru eigendur Maika‘i Reykjavík. Þar selja þau açaí skálar sem hafa slegið rækilega í gegn meðal landsmanna. Sjöfn Þórðar heimsækir Ágúst í Maikai í Smáralindinni og fær að heyra um tilurðina á staðnum og leyndardóm açaí-berjana sem eru grunnurinn í skálunum og gera gæfumuninn. Vöxtur fyrirtækisins hjá þeim hefur verið undraverður en það er innan við ár síðan þau stofnuðu Maikai og fyrst afgreiddu þau aðeins stærri pantanir til fyrirtækja. Skömmu síðar fóru þau að selja skálarnr hjá Sætum snúðum í Mathöll Höfða. Vinsældir staðarins hafa vaxið ört og stöðunum fjölgað í takt við það því nú eru þau búin að opna Maikai á fimm stöðum, í Mathöll Höfða, á Hafnartorgi, í Smáralind, í World Class Laugum og loks það nýjasta útbú í Háskólanum í Reykjavík.
Skálarnar á Maikai njóta mikilla vinsælda og eru meinhollar og bragðast eins og besta sælgæti, að sögn Sjafnar.
„Viðbrögðin við Maikai skálunum hafa farið langt fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Ágúst. Þau ákváðu strax að vera með gott hráefni og tryggja gæðin með því að flytja inn aðalhráefnið. „Við flytjum grunninn sem við notum frá Brasilíu. Við Amazon-fljótið þar er eini staðurinn þar sem þessi ber eru til. Grunnurinn okkar er úr sjálfum açaí berjunum. Hann er bara úr frosnum berjum, vatni og smá lífrænu sírópi til að fá smá sætu. Açaí ber líta alveg eins út og bláber.“ Elísabet Metta og Ágúst ákváðu að koma draumum sínum í framkvæmd og með svona glæsilegum árangri. Meira um söguna bak við Maikai í þættinum Matur og Heimili í kvöld klukkan 20.00.