Ekki ybba gogg við ráðherra

Gunnar Bragi Sveinsson efast um að Mjólkursamsalan hafi brotið gegn samkeppnislögum, eins og Samkeppniseftirlitsins segir. Gunnar Bragi segir mikilvægt að halda í það kerfi sem hér er. Jú, vegna smæðar landsins og hversu bændur eru dreifðir um þetta sama smáa land.

Það er ekkert hik á ráðherra mjólkurinnar. Hann er Skagfirðingur og þar, sem svo víða annarsstaðar, er það talinn góður siður að verja sitt og sinna. Það gerir Gunnar Bragi Sveinsson. Hann nánast segir Samkeppniseftirlitið vera að ybba gogg að óþörfu.

Gunnar Bragi veit sem er að Mjólkursamsalan er í einokunarstöðu. „Um það gildir ákveðnar reglur og því ber að fara eftir þeim,“ sagði ráðherrann í Fréttablaðinu.

Hann segir Mjólkursamsöluna hafa í gegnum tíðina sýnt samfélaginu mikla ábyrgð.  Það er gott að hafa landbúnaðarráðherra sem er staðfastur í trú sinni. Þjóðin veit hvað hún á í manni einsog Gunnar Braga.

Það er aftur á móti verra með hann Ásmund okkar Friðriksson. Hann skilur ekki neitt. Ásmundur kvartar undan því að Gunnar Bragi, sem blessunarlega er líka sjávarútvegsráðherra, hafi fært slatta af strandveiðikvóta frá sunnlenskum trillukörlum og til sinna manna, trillukarla í kjördæmi ráðherrans, hins staðfasta stjórnmálamanns. Minna mátti það ekki vera.

Ásmundur sagði að sér fyndist það „afskaplega óréttlátt af nýsettum sjávarútvegsráðherra að hafa þetta sem sitt fyrsta verkefni, að færa þennan kvóta í sitt kjördæmi. Gunnar Bragi er einsog alþjóð veit þingmaður Norðvesturkjördæmis. Spurður um þessi ummæli Ásmundar sagði sjávarútvegsráðherra í Mogganum: „Ég held að Ásmundur ætti ekki að kasta steinum úr glerhúsi þegar kemur að umræðu um kjördæmi.“

Mikið skil ég Gunnar Braga vel. Hann á ekki að þurfa að þola að Ásmundur Friðriksson, eða annar óbreyttur þingmaður, ybbi gogg þó ráðherrann færi afkomu sunnlenskra trillukarla til að þeirra norðlensku.

Það á ekki að ybba gogg við ráðherra. Látum þá í friði.

Sigurjón M. Egilsson.