Ekki voru þeir allir jafnfeitir

Það var laugardagsmorgunn. Ég leit út um svefnherbergisgluggann á reynitréð og sá að greinarnar bærðust svo ég gerði ráð fyrir því að það væri svolítil gola. En það var reyndar alls ekki svo. Feitur þröstur spókaði sig á grein og hoppaði til og frá. Blakaði svo vængjunum og flögraði á næstu grein. Sem ég neri stírurnar úr augunum sá ég annan sem hegðaði sér svipað. Ég velti því fyrir mér hvort það kæmi aldrei fyrir að greinar brotnuðu undan fuglum. Þá sá ég að það voru miklu fleiri fuglar í trénu. Þetta minnti mig á felumynd í Æskunni í gamla daga:

Hvað eru margir þrestir í trénu?

\"\"

Ekki voru þeir allir jafnfeitir. Skyldi offita verða vandamál hjá fuglum? Að minnsta kosti virðast þeir vera svo vel haldnir í haust að ég man aldrei eftir svona mörgum berjum á trjánum svona seint á haustin. Vigdís sagði mér um daginn að þegar fuglarnir ætu berin gerjuðust þau og þeir yrðu ölvaðir og söngurinn ágerðist. Kannski voru fuglarnir í trénu mínu góðtemplarar.

Og þó. Þarna er einn sem teygir sig niður í berjaklasann yst á greininni, greinin svignar en brotnar ekki. Gefur reyndar eftir og berin lækka. Þrösturinn horfir ábúðarfullur á berin, rétt eins og hann ætli ekkert að gera, þannig að hvorki greinin né berin hafa hugmynd um að árás er í vændum. Horfir spekingslega út í loftið og þykist vera að leysa skákþraut í huganum.

\"\"

Svo skýtur hann höfðinu snöggt fram og grípur berið ef það víkur sér ekki undan. Stundum tekst það í fyrstu tilraun, en oftar en ekki þurfti fleiri atrennur til. En oftast endar baráttan þannig að þrösturinn heldur eldrauðu berinu í goggnum andartak. Svo hverfur það sína leið. Eftir þrjú ber er hann búinn að fá nægju sína og flögrar burtu og trallar: „Mikið lifandi, skelfingar ósköp er gaman … “

\"\"