Hér hefur orðið „tækifærismennska“ verið notað um framgöngu þeirra Frosta og Þorsteins Sæmundssonar, nær væri að nota orðið „tvöfeldni“. Þetta segir Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins í pistli á bjorn.is.
Lykilatriði í störfum löggjafarvaldsins er að þingmenn séu sjálfum sér samkvæmir og fyrir liggi hvað þeir hafa samþykkt og hverju þeir hafa hafnað. Upplýsinga um þetta er auðvelt að afla sér með því að skoða þingtíðindi. Þau eru öllum aðgengileg á vefsíðu alþingis.
Eins og lesendur síðu minnar vita hef ég lagt mig fram um að afla sem mestra upplýsinga um þriðja orkupakkann og afstöðu til hans innan stjórnkerfisins og meðal stjórnmálamanna. Margt forvitnilegt hefur komið í ljós. Þó yfirsást mér eitt atriði sem á var bent á vefsíðunni Stundinni á skírdag, fimmtudaginn 18. apríl. Það er að þegar hefur verið innleiddur eða lögfestur hluti þriðja orkupakkans. Var það gert með lögum sem alþingi samþykkti 28. maí 2015.
Ástæða fyrir því að þetta atriði hefur ekki verið hluti allra umræðnanna um þriðja orkupakkann er meðal annars sú að innleiðingar þessa hluta hans er ekki getið í þeim skjölum sem nú liggja fyrir alþingi. Engin skýring er á þögninni um þennan þátt málsins. Einkennilegast er þó að menn eins og Þorsteinn Sæmundsson, núv. þingmaður Miðflokksins, skuli þegja um þetta - eða kannski er það ekkert einkennilegt.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins.
Þessi sami Þorsteinn var þingmaður Framsóknarflokksins í febrúar 2015 og hann var einnig framsögumaður meirihluta atvinnuveganefndar þingsins þegar um þennan hluta þriðja orkupakkans var fjallað. Þorsteinn sagði í ræðu á alþingi 24. febrúar 2015:
„Með frumvarpinu er lagt til að 22. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB um sameiginlegar reglur fyrir innri markað raforku [þriðji orkupakkinn] verði innleidd hér á landi. Í tilskipuninni eru sameiginlegar reglur um framleiðslu, flutning, dreifingu og afhendingu rafmagns og ákvæði um neytendavernd. Markmið tilskipunarinnar er að bæta og samþætta samkeppnishæfa raforkumarkaði innan bandalagsins. Hún hefur ekki enn verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið en talið er rétt að innleiða þennan hluta hennar, þ.e. 22. gr., þar sem mælt er fyrir um kerfisáætlun flutningafyrirtækis.“
Lilja Rafney Magnúsdóttir fulltrúi VG í atvinnuveganefnd flutti breytingartillögu:
„Við 2. gr.
a. Í stað orðanna „raforkunotkunar, markaðsþróunar og raforkuflutnings til annarra landa eftir því sem við á“ í 3. mgr. a-liðar (9. gr. a) komi: raforkunotkunar og markaðsþróunar.“
Um þessa tillögu voru greidd atkvæði á alþingi 28. maí 2015:
Já sögðu:
ÁPÁ, BirgJ, BjG, BP, GuðbH, GStein, HHG, HHj, KaJúl, LRM, OH, PVB, RM, SII, SJS, SÞÁ, SSv, VBj, ÖJ, ÖS.
Nei sögðu:
AME, ÁsF, BÁ, EKG, ELA, EyH, FG, FSigurj, GÞÞ, GBS, HBK, HarB, HE, HöskÞ, JMS, JónG, KÞJ, LínS, PJP, SDG, SÁA, UBK, VigH, VilÁ, VilB, WÞÞ, ÞorS, ÞórE.
Tillagan var felld. Í henni var m.a. gert ráð fyrir að fella niður orðin „raforkuflutnings til annarra landa“. Meðal þeirra sem felldu þessa niðurfellingu var þingmaðurinn „FSigurj“, það er Frosti Sigurjónsson sem þá sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn en fer nú mikinn gegn þriðja orkupakkanum meðal annars með stórum yfirlýsingum um að hann hafi aldrei lagt neinu lið sem snerti sæstreng. Ávallt verið á móti því öllu.
Hér hefur orðið „tækifærismennska“ verið notað um framgöngu þeirra Frosta og Þorsteins Sæmundssonar, nær væri að nota orðið „tvöfeldni“. Stundum er sagt að ekki sé „hægt að treysta mönnum yfir þröskuld“, það á við hér.
Þegar þetta mál var rætt á þingi í febrúar 2015 var ekki aðeins fjallað um raforkulögin heldur einnig þingsályktun sem snýr að þessum kerfisáætlunum. Nú hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra lagt fyrir alþingi tillögu til breytinga á þessari þingsályktun, svohljóðandi:
„Ekki verður ráðist í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis. Skal það samþykki liggja fyrir áður en framkvæmdir sem varða slíka tengingu geta farið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Til grundvallar slíkri ákvörðun Alþingis skal liggja heildstætt mat á umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum áhrifum slíkrar tengingar og framkvæmda vegna hennar.“
Frosti Sigurjónsson berst hatrammlega gegn þessu og Þorsteinn Sæmundsson greiðir tillögunni líklega ekki atkvæði á alþingi.