Nýjustu tölur um Covid eru góðar (að svo miklu leyti sem tölur af þessu tagi geta verið góðar).
Fjöldi virkra smita er innan við spá sérfræðinga og sama má segja um fjölda innlagna á sjúkrahús. Fjöldi gjörgæslu er enn talsvert yfir spám eða sex í stað tveggja sem spáð var eins og ég fór yfir á pistli á bjz.is í gær. Thor Aspelund, sem er einn sérfræðinganna sem vinnur að tölfræðilíkaninu hefur upplýst að í næstu útgáfu muni meiri svartsýni gæta varðandi þennan þátt.
En innlögnum á gjörgæslu hefur ekki fjölgað síðan í gær. Og samkvæmt opinberum tölum hefur fólki í sóttkví fækkað í fyrsta sinn, sem eru góðar fréttir, en auðvitað eru margir í einkasóttkví.
Ég vil þó lýsa áhyggjum af einu atriði. Í gær frétti ég af tveimur sem að öllum líkindum eru sýktir, voru í sóttkví, en hafa ekki farið í próf.
Það er ekkert sérstakt hetjumerki að mæta ekki í prófið og getur í raun haft alvarleg áhrif í sambandi við rakningar á smitum.
Þetta ætti þríeykið að taka upp á blaðamannafundum.
Höfundur er einn stofnanda Viðreisnar.