Bjarni Benediktsson renndi sér út á hála ísinn í dag þegar hann sagði í samtali við RÚV að sala Arion banka á hlutabréfum í Símanum væri klúður. Bjarni sagði að “ólíðandi” væri að fáir útvaldir fái að kaupa á sérkjörum á undan öðrum í útboðinu. “Það er engin þolinmæði fyrir slíku í þjóðfélaginu.”
Jæja, Bjarni Ben.! Ættir þú ekki að fara afar varlega í yfirlýsingar af þessu tagi?
Það eru ekki margir mánuðir síðan frændur þínir, ættingjar og vinir keyptu stóran hlut í Kreditkortum hf. af Landsbankanum án nokkurs útboðs. Það var ekki bara að þeir fengju að kaupa á undan öðrum á lægra verði. Þeir fengu að kaupa allt saman og sátu einir að kaupunum. Allt gert með mikilli leynd. Ekki minnist Náttfari þess að Bjarni hafi þá talað um “klúður\" og að eitthvað væri “ólíðandi”. Samt átti Landsbankinn þessi bréf og ríkið á Landsbankann 98%. Sannarlega kemur fjármálaráðherra við hvernig sýslað er með Landsbankann en miklu síður hvernig Arion banki hagar viðskiptum sínum.
Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður hefur haft miklar skoðanir á því hvernig Arion stóð að sölu hlutabréfa í Símanum. Það er alveg á mörkunum að honum eða öðrum alþingismönnum komi það mikið við hvernig Arion vinnur þó svo ríkið eigi örlítinn hlut í bankanum. Bankasýslan var sérstaklega sett upp til að tryggja “armslengdarsjónarmið” í rekstri fjármálafyrirtækja frá einmitt Alþingi og ríkisstjórn. Þetta skilur Guðlaugur Þór ekki. Hann er kominn í harða keppni við Vigdísi Hauksdóttur um það í þinginu hvort þeirra er ómerkilegri poppulisti. Vígdís hefur haft forystu fram til þessa en Guðlaugur er sennilega að taka fram úr.
Úr því að formaður Sjálfstæðisflokksins sá ástæðu til að blanda sér í poppulistaumræðu um sölu á hlutabréfum í Símanum með dómi um að vinnubrögð væru “ólíðandi”, þá verður fjóðlegt að fylgjast með því hvernig hann ætlar að standa að sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka ef það verður niðurstaðan að ríkið eignist bankann eins og flest bendir til á þessari stundu.
Það verður fylgst vel með söluferli bankanna því þessi ríkisstjórn sérhagsmuna hinna fáu ríku er alveg vís með að útdeila bönkunum til vildarvina, ættingja og helstu stuðningsmanna flokkanna. Sporin hræða frá síðustu einkavæðingu ríkisbanka þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsókn skiptu einkavæðingunni bróðurlega á milli vina sinna.
Það er ekki sama hver klúðrar.