Ekki mistök að ráða þorvald til starfa?

Oddur Helgi Halldórsson, guðfaðir L-listans á Akureyri, sem varði þá ákvörðun á sínum tíma að ráða Þorvald Lúðvík Sigurjónsson sem framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, segist enn í þeirri trú að ráðningin hafi ekki verið mistök.

Andrea Hjálmsdóttir, bæjarfulltrúi VG á Akureyri, gagnrýndi ráðninguna harðlega á sínum tíma. Um opinbera stöðu er að ræða þar sem laun framkvæmdastjórans eru greidd af almenningi auk þess sem traust og trúnaður þarf að ríkja milli almennings og trúnaðarmanna að sögn siðfræðinga. Siðfræðingar sögðu ráðninguna velta upp spurningum um skilaboð til samfélagsins en Þorvaldur Lúðvík hafði stöðu sakbornings hjá sérstökum saksóknara þegar hann var ráðinn til AFE. Hann var tekinn yfir fjölda annarra vammlausra umsækjenda.

Þorvaldur er einn þriggja manna sem dæmdir voru í dag í fangelsi í dag. Hann fékk 18 mánaða óskilorðsbundinn dóm fyrir aðild að umboðssvikum en Lár­us Weld­ing, fyrr­ver­andi banka­stjóri Glitn­is, var dæmd­ur í fimm ára fang­elsi í Stím-mál­inu fyr­ir umboðssvik og Jó­hann­es Bald­urs­son, fram­kvæmda­stjóri markaðsviðskipta Glitn­is dæmd­ur í 2 ára fang­elsi í mál­inu.

Akureyri vikublað fjallaði ítarlega um ráðningu Þorvaldar Lúðvíks á sínum tíma. Kom m.a. fram í umfjöllun blaðsins að í fréttatilkynningu sem formaður stjórnar AFE sendi fjölmiðlum þegar tilkynnt var um ráðningu Þorvaldar Lúðvíks, sagði að Þorvaldur hefði aðstoðað sérstakan saksóknara. Stjórnarformaðurinn baðst síðar afsökunar á þessu orðalagi í viðtali við blaðið, enda enginn fótur fyrir því.

Hringbraut hafði samband við Odd Helga Halldórsson til að leita viðbragða.

Liggur ekki fyrir að þú og aðrir sem réðuð Þorvald Lúðvík til starfa gerðuð mistök í ljósi dómsniðurstöðu dagsins?

„Nei, á sínum tíma gengum við út frá sakleysi og mitt mat er að menn eru saklausir uns sekt er sönnuð og eiga að fá að njóta þess.“

Andrea Hjálmsdóttir, fyrrum bæjarfulltrúi, benti á að menn væru ekki endilega saklausir þótt ekki væri búið að dæma þá seka. Var ekki rangt á þessum tímum uppgjörs þegar skapa þurfti nýtt samband trúnaðar og trausts hjá almenningi eftir bankahrunið að ráða mann sem hafði réttarstöðu sakbornings? Hvers áttu hinir umsækjendurnir að gjalda?

„Við tókum umdeilda ákvörðun en ég stend með henni,\" svarar Oddur Helgi.

Heimildir Hringbrautar herma að til hafi staðið að setja klásúlu í samning við Þorvald Lúðvík um að hann myndi hætta í starfi ef hann yrði dæmdur sekur.

Viðbragða stjórnar AFE er nú beðið.

Uppfært klukkan 15.18: Eftir því sem fram kemur á visir.is ber stjórn AFE enn fullt traust til Þorvaldar Lúðvíks þrátt fyrir 18 mánaða fangelsisdóm. Í yfirlýsingu AFE segir:

Akureyri, 21. desember 2015


Yfirlýsing vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar bs., Þorvaldar Lúðvíks Sigurjónssonar

Í ljósi niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur vill stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar bs. (AFE) koma eftirfarandi á framfæri: 

Eftir að hafa farið gaumgæfilega yfir málið og leitað sér lögfræðiráðgjafar hefur stjórn AFE komist að þeirri niðurstöðu að aðhafast ekki í máli framkvæmdastjóra félagsins fyrr en að niðurstaða Hæstaréttar Íslands liggur fyrir.

Allt frá því að framkvæmdastjórinn fékk stöðu grunaðs manns hefur stjórn félagsins borið fullt traust til hans og á því hefur ekki orðið breyting. Það er ákvörðun stjórnar að leyfa framkvæmdastjóra að njóta áfram vafans. Í ljósi þess hvernig á málum hefur verið haldið hingað til og þess að málið er enn í meðförum dóms telur stjórn eðlilegt að endanleg ákvörðun verði ekki tekin fyrr en að úrskurður Hæstaréttar liggur fyrir, enda hefur Hæstiréttur síðasta orðið um sekt manna og sakleysi að lögum.
  F. h. stjórnar Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar bs. Unnar Jónsson, formaður  

(Fréttaskýring: Björn Þorláksson)