Ekki í neinu liði? kjaftæði!

 

Síðasta bók sem ég skrifaði fjallaði um blaðamennsku. Þar hélt ég fram að ég væri ekki í neinu liði í fjölmiðlaheiminum, landlaus flóttamaður, á sama tíma og íslenskt samfélag hefur allt frá tímum Sturlungu krafist þess að hver og einn skipi sér í fylkingar. Maður verður að vera í liði! Þótt ekki sé nema vegna þess að ef þú ert ekki í liði finnst öllum hinum í öllum hinum liðunum alltof erfitt að átta sig á þér! Við höfum alltaf lifað í samfélagi stimplana á þessu skeri. Skýringar á því eru einkum valdatengslin, einangrunin og fámennið.

En svo fór ég að hugsa yfir hafragrautnum í gær: Að það væri bölvuð lygi að ég sé ekki í neinu liði. Eftir því sem ég hugsaði meir um málið komst ég hægt en örugglega að þeirri niðurstöðu að ég væri í liði og hlutdrægur eftir því.

Að vísu á ég hvorki neitt uppáhaldslið í pólitík, íþróttum né listum hér á landi. En á hverjum degi geng ég bjagaður til leiks í blaðamennskunni um leið og ég stíg fram úr rúminu. Ég verð að afhjúpa hér ást mína á einu liði, ofurtrú mína á að veita þeirri fylkingu styrk. Þar er ég að tala um lið litla valdalausa einstaklingsins. En ólíkt Karl Marx trúi ég ekki að byltingar lítilmagnanna muni um síður skapa útópíu.

Þessi ást mín á liði smælingjanna birtist um leið og ég ákveð að morgni hvað skuli setja á dagskrá í starfi fjölmiðlamannsins. Ég hef að jafnaði lítinn áhuga á að ræða við ríkt og áhrifaríkt fólk – ekki nema þá til að spyrja það ágengra spurninga þegar upp koma álitamál. Því er runnin upp stund játningar, að viðurkenna þá fordóma mína að mér finnst fólk sem ver mestum tíma sínum í að verða ríkt að jafnaði ekki áhugavert. Þá kannski sést mér yfir að margir eru bæði ríkir og hugmyndaríkir, líka góðir foreldrar og mannkynsvinir. Þessi hópur hlýtur stundum að tapa á ást minni á litla manninum þegar kemur að beitingu dagskrárvaldsins.

Kannski er það ókei, því í stuttu máli trúi ég ví að valdið sjái um sig sjálft og að því þurfi ekki sérstaklega að hjálpa. Ég trúi að helsta dyggð fjölmiðla sé að mæta þessu valdi. Spyrja allra erfiðustu spurninganna og hopa hvergi, jafnvel þótt kosti starfið. Þessi hyggja getur orðið til þess að ágætir vinir mínir, vel stæðir og áhrifaríkir, falla milli skips og bryggju þegar kemur að athygli minni sem fjölmiðlamanns. Nema þegar þeir skíta á sig. Þá er ég mættur og spyr oft hvasst.

Það er vegna ofangreinds sem mér finnst Sjálfstæðisflokkurinn að flestu leyti óáhugaverðasti flokkur landsins. Af því að hann hefur langmestu völdin í efnahagspólitísku tilliti. Á hinn bóginn hlusta ég af athygli á málflutning dvergflokksins pírata á þingi. En fari svo að píratar haldi þeim 35% sem þeir mælast nú í skoðanakönnum með og fari að stjórna landinu inan tíðar væri ég vís til að slást andlega í för með nokkrum þingmönnum Framsóknarflokksins á næsta kjörtímabili ef sá flokkur lýtur í gras.

Það getur verið djöfullegt fyrir samfélagið að hleypa fólki að í blaðamennsku sem ekki leyfir ríka og fræga fólkinu alltaf að njóta sannmælis – þegar það á gott skilið.

En ég hef sumsé kosið að veita þeim athygli sem svamla gegn straumnum.

Þar liggur mitt lið. Af því að það finnst mér lýðræðislegt. Og ég vona að sá tími renni upp að fleiri fjölmiðlamenn tileinki sér þessa hugsun. Þeir eru allmargir fyrir. En þeim mætti augljóslega fjölga, landi og þjóð til góðs. Skítt með þessa góðu ríku. Þeir sjá um sig sjálfir...

(Þessi fjölmiðlarýni Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut.is)