„Þetta er skrýtið ástand og mikil afneitun í gangi sem vonandi mun taka enda næsta sólarhringinn. Ég sé ekkert annað í spilunum fyrir Sigmund Davíð en að hypja sig með allt sitt hyski, sagði Reynir Traustason, fyrrverandi ritstjóri DV og nú blaðamaður á Stundinni, í síðdegisþætti Tóta á útvarpi Hringbrautar í gær þegar samfélagið nötraði vegna hneykslismála tengdum Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra.
Reynir sagðist hafa hlerað það innan úr Sjálfstæðisflokknum að þar væri fólk að fara á taugum. Það væri hluti af vanda Sigmundar Davíðs. Það væri ekki nóg að hann vildi vera. Hann þyrfti að glíma við óróann innan samstarfsflokksins.
Reynir tók undir það sem Ólafur Arnarson, hagfræðingur, sagði fyrr í þættinum að Sjálfstæðisflokkurinn væri í raun í sjálfsmorðsleiðangri ef hann ætlaði að styðja Sigmund Davíð í orrahríðinni. Þaðan hefði hann heyrt að fólk hafi „nístandi áhyggjur.“
„Það er að brotna mjög víða upp úr þessu. Það er meira að segja farinn að heyrast kurr innan úr Framsóknarflokknum,“ sagði Reynir og bætti við að þar væru „nytsamlegir sakleysingjar“ að átta sig á að þeir væru að sökkva með Sigmundi Davíð.
Reynir sagði einnig að sér sýndist að Framsóknarflokkurinn væri við það að hrökkva niður í að vera flokkur á stærð við Bjarta framtíð. Sigmundur Davíð væri einfaldlega ekki „hæfur til þess að vera pólitíkus í fremstu víglínu.“
Aðspurður um gagnrýni sem hefur komið fram á Jóhannes Kr. Kristjánsson, blaðamann, vegna viðtalsins umtalaða í Kastljósi. Að þetta hafi verið fyrirsát og hönnuð atburðarás sagði Reynir að þetta hefði verið „allt í fína“ hjá Jóhannesi. „Þú þarft að vera mjög harður af þér til þess að króa fórnarlambið af eins og gert var en þetta var fullkomlega réttlætanlegt. Og gott að Jói skyldi klára þetta.“
Reynir sagði það til vitnis um sjúklegt umhverfi að stjórnmálamenn gætu komist upp með að sniðganga fjölmiðla. Sigmundur Davíð hafi hins vegar hitt fyrir ofjarl sinn í RÚV og að vonandi stæðum við á vendipunkti þar sem þetta ástand myndi breytast.
Hlustið á þáttinn allan hér. (Viðtalið við Reyni stendur milli 1:09:40 – 1:19:25)
Síðdegisþáttur Tóta er á dagskrá Hringbrautar FM 89.1 alla virka daga frá 16-18.
Hægt er að hlusta á Hringbraut í beinni útsendingu hér.