Ekkert fylgi á meginlandinu

 Náttfara finnst yfirlýsing Elliða Vignissonar, bæjarstjóra í Eyjum, um að hann ætli ekki í prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum á Suðurlandi kom verulega á óvart. Allt þótti benda til að hann væri búinn að taka ákvörðun og færi galvaskur fram í fyrsta sætið til að fella Ragnheiði Elínu. Talið var fullvíst að hann nyti stuðnings formanns flokksins og annara helstu flokkseigenda, þar á meðal sægreifanna um land allt.
 
Nú er komið á daginn að Elliði nýtur ekki fylgis í kjördæminu nema í Vestmannaeyjum þar sem hann er dáður fyrir dugnað og að vera kjaftfor að sjómannasið. Skoðanakönnun sem gerð var og sýndi yfirburði hans mun einungis hafa náð til Vestmannaeyja. Suðurlandskjördæmi er fjölmennt og Vestmannaeyingar eru einungis um 10% íbúanna þó þeir séu oft fyrirferðarmiklir og láti í sér heyra. Suðurnesjamenn eru meira en 40% kjósenda í kjördæminu og þeir reyndust ekki hafa minnsta áhuga á Elliða þegar til átti að taka. Þeir munu frekar vilja gefa Ragnheiði annað tækifæri til að leiða listann þó hún hafi ekki staðið undir væntingum sem ráðherra.
 
Þetta er óneitanlega óvænt staða. Elliði hefur talað digurbarkalega um framboð og flestir áttu von á að framboð hans hafi verið undirbúið miklu betur en raun ber vitni. Vestmannaeyingar eru bara ekki nógu fjölmennir til að geta komið sínum manni í efsta sæti listans. Ragnheiður Elín er samt ekki laus við alla ógn í komandi prófkjöri. Unnur Brá Konráðsdóttir, sem skipar 2. sæti lista flokksins, hefur þótt vaxandi stjórnmálamaðuir meðan Ragnheiður Elín hefur þótt hnignandi. Það freistar Unnar eflaust að láta reyna á styrk sinn í fyrsta sæti flokksins en hún er búsett á Hvolsvelli í miðju blómlegu landbúnaðarhéraði Suðurlands.
 
Einhverjar sögur eru á kreiki um að Pál Magnússon þáttastjórnanda langi mikið á þing fyrir einhvern flokk. Hann hefur m.a.sagt það í viðtali við DV án þess að nefna þann flokk sem helst kæmi til greina. Hann er fæddur krati og er talinn hafa verið stuðningsmaður Samfylkingar en nú virðist allt vera opið frá hans bæjardyrum, bara ef þingsæti gæti verið í boði. Gildir þá einu hvort um er að ræða Viðreisn, Sjálfstæðisflokkinn eða Samfylkingu. 
 
Úr því bæjarstjórinn sjálfur treystir sér ekki, þarf varla að búast við að Páll Magnússon næði miklum árangri í hörðu prófkjöri hjá sjálfstæðismönnum á Suðurlandi þar sem taka þyrfti slag við sitjandi ráðherra.
 
Þá er vert að hafa í huga að Sjálfstæðisflokkurinn hafði mikla óbeit á Páli meðan hann var útvarpsstjóri í tíð vinstri stjórnarinnar. Hann þótti ganga erinda Jóhönnu og Steingríms. Enda var það eitt fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar að setja hann af. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra lét reka Pál og hefur uppskorið heldur bitrar greinar og viðtöl um málið. Flokksmenn muna þetta og rifja það upp láti hann reyna á styrk sinn í prófkjöri hjá þeim flokki sem setti hann út á gaddinn.