„Nói Síríus auglýsir nú í ákafa nýja vöru, Bíó Kropp, sem sagt er „með geggjuðu butter & salt bragði“. Ég þykist vita að stjórnendum fyrirtækisins sé kunnugt um að butter heitir smjör á íslensku.“ Þetta segir Eiríkur Rögnvaldsson, fyrrverandi prófessor í íslensku við Háskóla Íslands, í færslu sinni í Facebook hópinn Málspjall.
Nói Síríus gaf út nýja vöru á dögunum, Bíó Kropp, þar sem kroppið bragðast af smjör og saltbragði. „Mér er hulin ráðgáta hvers vegna þarna er notuð enska en ekki íslenska,“ segir Eiríkur.
Hann segist þykjast vita að stjórnendum fyrirtækisins sé kunnugt um að butter heiti smjör á íslensku. „Ef þeim finnst eitthvað óheppilegt eða ólystugt að tala um smjörbragð ætti kannski frekar að huga að því að breyta vörunni en láta íslenskuna víkja,“ bætir hann við.
Eiríkur segir það ekki til sóma að nota ensku í heiti á vöru íslensks fyrirtækis fullkomlega að ástæðulausu. „Það gefur til kynna að íslenska þyki ekki nothæf þegar þarf að vekja athygli, t.d. setja nýja vöru á markað. Þetta grefur meira undan íslenskunni en við áttum okkur á,“ segir hann.
Hann skorar á Nóa Síríus að breyta umbúðunum hið fyrsta og hafa þær á íslensku.