Ása Tryggvadóttir keramikhönnuður hjá Stilkar stúdíó verður hjá Sjöfn Þórðar í þættinum Matur & Heimili á mánudagskvöld:
Á Íslandi erum við svo heppin að eiga flóru að af hæfileikaríkum hönnuðum á ýmsum sviðum og gefa okkur kost á því að fegra heimilin með íslensku handverki. Á Vatnsstíg 3 í hjarta miðborgarinnar er keramikhönnuðurinn Ása Tryggvadóttir ásamt samstarfskonu sinni Þóru Björk Schram með Stiklar stúdíó og vinnustofu. Sjöfn Þórðar heimsækir Ásu í stúdíóið og fræðist um söguna bak við hönnun hennar og hvernig allt byrjaði. Fyrsta verk Ásu voru stilkarnir sem eru hennar auðkenni. „Innblásturinn fékk ég í fjörunni út við Gróttu og hefur fjaran og sjórinn ávallt haft mikil áhrif á hönnun mína,“ segir Ása.
Hönnun Ásu hefur þróast með árunum og er borðbúnaður, eins og salatskálar, diskar, sushi sett, fallegir bollar í ýmsum stærðum og gerðum meðal þeirra hönnunarverka sem hafa sprottið fram þar sem postulínið er efniviðurinn.
„Bollarnir urðu svolítið óvart til hjá mér en hafa verið mjög vinsælir. Það er svo gaman að sjá hvað það er mikið af ungu fólki sem kemur að velja sér sinn bolla,“ segir Ása. Hver og einn hlutur hefur sinn persónuleika og gaman er að dekka borð með íslensku handverki þar sem allir bollarnir eða diskarnir þurfa ekki að vera eins. Áhugaverð innsýn inn í hönnun Ásu og sjón er sögu ríkari. Missið ekki af áhugarverðu innliti í Stilkar stúdíó á mánudagskvöld.
Þátturinn Matur & Heimili er á dagskrá öll mánudagskvöld klukkan 20.30 og er að jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.