Enn á ný hefur skapast umræða um frumvarp þingmannsins Vilhjálms Árnasonar um að heimila sölu áfengis í sjoppum og verslunum. Kári Stefánsson varpaði sprengju inn í þessa umræðu um helgina þegar hann sagði í útvarpsþætti að þingmaður úr Sjálfstæðisflokki hafi haldið því fram að frumvarpið væri samið á vegum Haga en ekki af þingmanninum Vilhjálmi. Hagar hf. hafa vísað þessu á bug. Kári hefur aftur á móti lagt þunga áherslu á að þjóðin þoli ekki meiri áfengisnotkun og þurfi alls ekki rýmri aðgang að þessum varningi en nú er.
Þessi umræða beinir athyglinni að umræddum alþingismanni, Vilhjálmi Árnasyni. Hann hefur nú átt sæti á þingi í bráðum 3 ár og ekki getið sér orð fyrir nein afskipti af þingstörfunum nema hvað varðar flutning þessa áfengisfrumvarps og umræður um það. Hann er sannkallaður einsmáls þingmaður.
En hvers vegna lætur ungur maður sem fær tækifæri ekki til sín taka í þinginu? Hefur hann ekkert fram að færa annað en tillögu um greiðari aðgang að áfengi? Kom hann hugmyndasnauður til Alþingis? Fer hann erindisleysu og lýkur hann ferli sínum vorið 2017? Verður hann ekki einnota þingmaður?
Erfitt er að svara þessum spurningum því nú er komið á daginn að Vilhjálmur Árnason hefur verið við nám meðan á veru hans á Alþingi hefur staðið. Hann hefur því engan tíma haft til að sinna þingstörfunum sem hann var þó kjörinn til vorið 2013. Vilhjálmur er að læra lögfræði í háskóla og hefur því ekki mikinn tíma til að láta þingstörfin trufla sig.
Vilhjálmur Árnason er því miður ekki eini þingmaðurinn sem lítilsvirðir löggjafarsamkomuna með þeim hætti að vanrækja þingstörfin og stunda krefjandi nám í stað þess að vinna þá vinnu sem þjóðin greiðir fyrir.
Fram hefur komið í fjölmiðlum að meðal þeirra sem stunda háskólanám samhliða þingsetunni eru Katrín Júlíusdóttir úr Samfylkingu, Róbert Marshall Bjartri framtíð, Vilhjálmur Árnason Sjálfstæðisflokki og fjórir úr þingflokki Framsóknar; Karl Garðarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir og Haraldur Einarsson.
Hér er á ferðinni fáheyrð lítilsvirðing við Alþingi Íslendinga. Sérstaka athygli vekur hve fróðleiksfúsir og námsþyrstir framsóknarmenn eru. Af 19 þingmönnum eru 4 við háskólanám eða 21% þingflokksins!
Auðvitað er gott að fólk vilji mennta sig. En það er viðfangsefni sem verður að sinna á öðrum tímum en þeim þegar fólk fær tæki færi til að hafa áhrif á gang mála við stjórn landsins og lagasetningu á hinu háa Alþingi.
Framkoma þessara sjömenninga sem stunda nám en þyggja samtímis full laun á Alþingi er enn til að draga úr trausti gagnvart þinginu. Ekki var það mikið fyrir og mátti ekki við þessum vondu fréttum.
Metnaðarleysið er algert. Virðing fyrir ráðherrum og þingmönnum er í lágmarki. Það verður að gera þjóðarátak í að bæta til muna gæði þingsins strax í næstu kosningum eftir rúmt ár. Það gerist einungis með því að skipta hressilega um kjörna fulltrúa og leyfa þeim sem hafa öðrum hnöppum að hneppa að gera það í friði utan þings.