Einnota engeyingar

Ein mesta valdaætt Íslandssögunnar, Engeyingar, þótti hafa komið ár sinni vel fyrir borð í fyrra þegar Bjarni Benediktsson, yngri, var loks orðinn forsætisráðherra og náfrændi hans, Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra.
Annar formaður Sjálfstæðisflokks en hinn formaður Viðreisnar.
 
En þessi gleði ættarinnar stóð einungis í átta mánuði. Þá sprakk stjórn þeirra, m. a. vegna einkennilegra mála sem tengdust föður fráfarandi forsætisráðherra.
 
Benedikt Jóhannesson hefur þegar látið af formennsku í Viðreisn og náði ekki kjöri til Alþingis í kosningunum í lok október. Viðbúið er að stjórnmálaferill hans verði ekki lengri. Samkvæmt því verður hann einnota fjármálaráðherra.
 
Bjarni Benediktsson hrökklast nú úr hinu virðulega embætti forsætisráðherra og þarf að eftirláta það formanni sósíalista í fyrsta skipti á Íslandi. Hann verður óbreyttur ráðherra í ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur sem er mikil gengisfelling á valdastöðu hans.
 
Allir formenn Sjálfstæðisflokksins hafa náð því að verða forsætisráðherrar. Enginn þeirra hefur gegnt því embætti eins stutt og Bjarni Benediktsson yngri.
 
Ekkert bendir til þess að Bjarni Benediktsson nái því að gegna embætti forsætisráðherra að nýju því nú hlýtur að sjá fyrir endann á stjórnmálaferli hans. Flokkurinn missti fimm þingmenn í síðustu kosningum og hlaut næstverstu útkomu í Alþingiskosningum frá upphafi, þrátt fyrir góðærið í þjóðfélaginu.
 
Bjarni hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn sem formaður í fernum kosningum; 2009, 2013,  2016 og 2017. Undir forystu hans hefur flokkurinn hlotið þrenn verstu úrslitin í sögu Sjálfstæðisflokksins og einnig þau fimmtu lökustu frá upphafi.
 
Því er spáð hér að Bjarni muni fljótlega yfirgefa stjórnmálin og verða þannig einnota forsætisráðherra.
 
Engeyingar mega muna feril sinn fegurri.
 
Rtá.