Flest værum við til í að eyða minni pening í vitleysu. Hér eru nokkur súpereinföld ráð sem geta hjálpað þér í baráttunni, sem Smartland hefur skrifað upp úr vefnum Self.
Ekki láta tölvuna muna kortaupplýsingarnar þínar
Ef þú þarft að sækja kreditkortið þitt og stimpla inn númerið er líklegra að þú standist mátið, enda ekkert einfaldara en að kaupa með einum smelli.
Eyddu kökunum í vafranum þínum
Hefur þú tekið eftir því að ef þú skoðar eitthvað fallegt á netinu, líkt og sæta skó, poppa þeir skyndilega upp á auglýsingaborðum á öllum síðum sem þú heimsækir næstu dagana. Skórnir voru svolítið freistandi þegar þú sást þá fyrst, en þegar þeir eru út um allt getur löngunin orðið skynseminni yfirsterkari.
Borgaðu fyrir kaffi með fyrirframgreiddu korti
Þú getur sparað mikinn aur með því að hlaða ákveðinni upphæð inn á fyrirframgreitt kort sem þú notar síðan til þess að borga kaffið. Þegar inneignin er búin er ekki lengur í boði að kaupa sér rjúkandi latté eða cappuccino þar til í næstu viku.
Borðaðu morgunmat heima
Mörgum þykir notalegt að stoppa í bakaríi á leiðinni til vinnu, það er þó dýrt þegar til lengdar lætur. Farðu þess í stað örlítið fyrr á fætur og fáðu þér að borða áður en þú heldur af stað út í daginn.
Varstu að skipta um vinnu? Eða fékkstu kannski launahækkun? Það getur verið góð hugmynd að halda áfram að lifa á „gömlu“ laununum og leggja eftirstöðvarnar til hliðar. Ef þú vilt lifa örlítið hærra skaltu prufa að fara hægar í sakirnar en vinnuveitandi þinn, til að mynda getur þú leyft þér að eyða 5% meira í hverjum mánuði ef þú fékkst 20% launahækkun. Með því móti verður þú fljótlega kominn með hinn fínasta varasjóð.
Losaðu þig við áskriftirnar
Nei, þú þarft ekki að losa þig við Netflix. Það er þó gott að fara í gegnum allar áskriftir og sjá hvort eitthvað leynist þar sem þú notar lítið. Ekki henda peningum út um gluggann.
Farðu í gegnum sjálfvirkar greiðslur
Prentaðu út yfirlit og farðu vandlega í gegnum allar sjálfvirkar greiðslur. Þú verður ábyggilega hissa að sjá hversu mikill peningur fer í alls kyns þjónustu sem þú notar ekki lengur.
Þetta kannast allir við, og ekki að ástæðulausu. Þegar þú sérð peningana hverfa úr veskinu er ekki annað hægt en að hugsa sig tvisvar um áður en þú festir kaup á einhverju.
Reyndu að fá betri kjör hjá tryggingafélaginu
Fólk borgar oft meira en það þarf að gera fyrir tryggingar. Það sakar ekki að hafa samband við tryggingafélagið og athuga hvort hægt sé að koma til móts við þig.
Leyfðu þér smá lúxus
Það er allt í lagi að láta svolítinn lúxus eftir sér, hvort sem það er jógatími, rauðvín á notalegum bar eða góð bók. Galdurinn er að láta þetta ekki verða að vana, heldur leyfa sér eitthvað skemmtilegt af og til.
Forðastu „sérhannaða“ kokteila
Vatnsmelónu- og basil-margarítan hljómar ótrúlega spennandi, en er að öllum líkindum dýrari en þessi gamla góða. Ef þú heldur þig við venjulega kokteila, í stað þeirra nýstárlegu, sparar þú að öllum líkindum svolítinn aur.
Ekki kaupa „bleikar“ rakvélar
Rakvélar sem markaðssettar eru fyrir konur eru að jafnaði mun dýrari en þær sem gerðar eru fyrir karlpeninginn. Forðastu „bleika“ skattinn og kauptu hreinlætisvörur fyrir karlmenn, svo sem rakvélar, raksápu og fleira.
Prufaðu „ókeypis“ hitting
Það er gaman að gera sér glaðan dag og hitta vinina, en þegar þið hittist ítrekað í hádegismat, á bar eða kaffihúsi, verður það fljótlega kostnaðarsamt. Það er sniðugt að poppa þetta svolítið upp og gera eitthvað saman sem ekki kostar neitt, til dæmis að fara út að skokka saman, skella sér í fjallgöngu eða skipuleggja kósí kvikmyndakvöld.
Fleiri ráð má lesa á vef Self.