Einelti

Hvers virði er illska sem hamslaus í hjörtunum brennur

hjá huglausu fólki sem níðir þann eina sem kvelst?

Hvers virði er tárið sem kalt niður kinnina rennur

er kyrrþeyrinn sýnir þær myndir sem óttumst við helst?

 

Er til meiri vesæld en hópur sem hæðist að einum

og hefur það markmið að ráðast á fallega sál?

Hver þráir að fylla sitt hjarta af hatri og meinum

og hugsa með stolti um ömurleg eineltismál?

 

Hvern langar að vera í fangelsi þrúgandi þagnar

og þola nær daglega grimmlyndi, hæðni og níð?

Hvern langar í gremju sem óttinn í myrkrinu magnar

er máttvana hugur vill hjálp sem er indæl og blíð?

 

Hvers virði er drengur sem öskrar á einmana hjarta

og elur í brjósti sér grimmd sem í hatur er þyrst?

Hvers virði er gæskan og samviskan sæla og bjarta

ef sjáum við ungling sem þráir að deyja sem fyrst?

 

Hvers virði er stelpa sem helst vill með hatrinu meiða

og hlær einsog skepna að sál sem er bitur og meyr?

Hvers virði er lífið ef ótta við náum að eyða

hjá ástlausu barni sem hangir í snöru og deyr?