Einar og Erna Ýr í hár saman: „Éttu skít“ – „Ég kemst því miður ekki í þetta matarboð hjá þér“

Óhætt er að segja að kastast hafi í kekki milli rithöfundarins Einars Kárasonar og Ernu Ýrar Öldudóttur í umræðum við færslu Eyþórs Arnalds á Facebook í gærkvöldi.

Eins og Hringbraut greindi frá í gærkvöldi lagði Eyþór, oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, það til að heiti Garðastrætis yrði breytt í Kænugarðsstræti til stuðnings Úkraínumönnum. Eyþór ætlar að leggja þessa tillögu fram í skipulagsráði í dag og verður fróðlegt að sjá hvort hún hljóti brautargengi.

Fjörugar umræður voru um tillöguna á Facebook-síðu Eyþórs og voru margir fylgjandi henni. Erna Ýr, sem er þekkt fyrir flest annað en að synda með straumnum, var henni hins vegar mótfallin.

„Þið eruð ekki með öllum mjalla að styðja þessa ömurlegu leppstjórn glæpamanna í Úkraínu. Best að koma ekki nálægt þessum fjóshaug. Segið pass - og hættið þessari sýndarmennsku.“

Þessi athugasemd frá Ernu Ýr fór öfugt ofan í marga og fór Einar ekki í neinar málalengingar þegar hann svaraði Ernu. Hann sagði einfaldlega: „Éttu skít.“

Erna Ýr svaraði athugasemdinni með þessum orðum:

„Ég kemst því miður ekki í þetta matarboð hjá þér. Verður bara meira til fyrir þig og þína.“

Umræðurnar má sjá undir færslu Eyþórs hér að neðan.