Tíðindi helgarinnar í stjórnmálum hér á landi eru keimlíkir pistlar einangrunarsinnana Björns Bjarnasonar og Styrmis Gunnarssonar þar sem þeir viðurkenna að Sjálfstæðisflokkurinn er kominn að fótum fram.
Þeir horfa skelfingu lostnir á nýja skoðannakönnun sem mælir flokkinn með 22,9% fylgi á sama tíma og Píratar eru nýtt forystuafl með 30,1% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn er að missa af lestinni. Þessir tveir pistlahöfundar bera vissulega sína ábyrgð á því ásamt fleirum. Þeir hafa verið ötulir talsmenn einangrunarhyggju sem kjósendur kunna greinilega ekki að meta.
Fjórflokkurinn er greinilega allur í vanda, kominn á "síðasta söludag" eins og sagt er um matvöru sem er við það að skemmast.
Þessum tveimur kumpánum hafa verið mislagðar hendur á stjórnmálasviðinu eins og dæmið um ákafan stuðning þeirra við Hönnu Birnu sýnir. Allir þekkja pólitíska harmsögu hennar. Spyrja má um dómgreind helstu stuðningsmanna hennar.
Vonandi fara þeir Björn og Styrmir brátt að þekkja sinn vitjunartíma sem meintir áhrifamenn í stjórnmálum. Er ekki nóg komið?
Styrmir lýkur pistli sínum um Sjálfstæðisflokkinn svona: "Þegar gömul vígi byrja að falla hrynja þau stundum á skömmum tíma."