Nú keppast ráðherrar Framsóknar við að sverja hinum fallna leiðtoga flokksins hollustueiða.
Í byrjun apríl hrökklaðist Sigmundur Davíð Gunnlaugsson úr embætti forsætisráðherra algerlega gegn vilja sínum eftir að upplýst var um mikil fjármálaumsvif þeirra hjóna í skattaskjólinu á Tortóla. Þjóðinni blöskraði algerlega en Sigmundi þótti framferði þeirra í fínu lagi. Viðbrögð landsmanna voru með þeim hætti að ekki varð hjá því komist að Sigmundur viki sem forsætisráðherra. Hann hvarf til útlanda í nokkrar vikur til að sleikja sár sín. Kom svo heim og byrjaði eitthvað að láta í sér heyra en fékk lítinn hljómgrunn.
Nú er hermt að hann muni gera atlögu að því að endurnýja forystuhlutverk sitt í flokknum. Framsókn mælist með fylgi í skoðanakönnunum sem gæti skilað flokknum 6 til 8 þingmönnum í komandi kosningum í stað þeirra 19 sem hann fékk kjörna vorið 2013.
Þrír af ráðherrum Framsóknar hafa að undanförnu vitnað Sigmundi Davíð til heiðurs og dýrðar. Sigurður Ingi, Lilja og Gunnar Bragi hafa öll lýst yfir stuðningi við Sigmund og tilkynnt að þau muni alls ekki gefa kost á sér til formennsku í flokknum enda sé Sigmundur Davíð yfirburðamaður og hinn mikli andlegi leiðtogi Framsóknar. Minnir þetta á vígorð frá liðinni öld þegar Þjóðverjar þjöppuðu sér saman á fjórða tug aldarinnar og hrópuðu: “Ein Volk – ein Führer”. Ein þjóð – einn leiðtogi. Við munum öll hvernig það endaði.
Meðvirknin í Framsóknarflokknum minnir á fleira úr mannkynssögunni, atburði úr nútímasögunni. Þá er vísað til þess þegar ráðherra upplýsingamála hjá Sadam Hussein sagði meðan sprengjuregnið dundi á Bagdad og allt var þar á hverfanda hveli að ekkert amaði að, björt tíð væri framundan þar sem herir Íraks sæktu fram, herir bandamanna væru á hröðu undanhaldi og þjóðin stæði bæði með Sadam Hussein og Bath flokknum.
Á næstu vikum skýrist hver verða pólitísk afdrif oddvitans lánlausa. Allir sannir andstæðingar Framsóknar vona auðvitað að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson haldi velli.