Í allri stjórnmálaumræðunni þessa dagana falla merkilegar fréttir af öðru í skuggann. DV hefur tvívegis fjallað um vægast sagt athyglisverð viðskipti sem aðrir fjölmiðlar hafa ekki séð ástæðu til að vitna í eða fjalla um.
Hér er átt við frétt blaðsins um að Gyða Dan Johansen sé meðal nýrra eigenda Emmessíss og hafi tekið sæti í stjórn fyrirtækisins. Þetta er fyrst og fremst merkilegt vegna þess að Gyða er eiginkona Ara Edwald forstjóra Mjólkursamsölunnar sem selur ísgerðinni nær allt hráefni sem hún þarf til framleiðslunnar.
Mjólkursamsalan hefur einokunarstöðu á íslenskum markaði og því eru öll viðskipti hennar sérlega viðkvæm og vandmeðfarin. Í ljósi þess hlýtur að vekja athygli og tortryggni að eiginkona forstjórans kaupi hlut í Emmessís og taki þar sæti í stjórn.
Ætla má að Samkeppnisstofnun veiti þessum hlutafjárkaupum sérstaka athygli en mikil átök hafa verið milli MS og Samkeppnisstofnunar sem lagði 500 milljón króna sekt á Mjólkursamsöluna vegna ólögmætra viðskiptahátta.
Rekstur Emmessíss hefur gengið illa samkvæmt frétt DV. Þannig nam tap fyrirtækisins 109 milljónum í fyrra og 52 milljónum árið 2014. Sölutekjur í fyrra voru um 700 milljónir króna og því nemur tapið um 15% af veltu. Bókfært eigið fé er neikvætt um 150 milljónir króna.