Eigendur 66°Norður vilja byggja 240 fermetra sumarbústað

Hjónin Bjarney Harðardóttir og Helgi R. Óskarsson, eigendur 66°Norður, hafa sótt um byggingarleyfi fyrir sumarhús á tveimur hæðum í landi Grímsnes- og Grafningshrepps.

Umsókn hjónanna var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar á dögunum og var samþykkt að hún fengi málsmeðferð. Ekki er um að ræða neinn smábústað en í umsókninni kemur fram að húsið verði 237,8 fermetrar og á tveimur hæðum.

Samkvæmt umsókninni mun húsið standa á fallegu og vinsælu sumarhúsasvæði í Grímsnesinu, við Selhólsveg. Tekið er fram að sveitarstjórn telji nauðsynlegt að grenndarkynna útgáfu byggingarleyfis fyrir húsinu þar sem há mænishæð þess getur mögulega haft grenndaráhrif.

„Engir skilmálar eru settir fram innan deiliskipulags er varðar hámarkshæð mænishæðar bygginga. Að auki mælist sveitarstjórn til þess að skipting lóðarinnar á grundvelli deiliskipulags verði kláruð áður en byggingarleyfi verði afgreitt. Að því loknu og berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa,“ segir í fundargerðinni.

Í umfjöllun Fréttablaðsins í desember 2019 kom fram að hjónin hefðu lagt mikið á sig til að geta keypt 66°Norður ásamt fjárfestingarsjóði árið 2011 og seldu þau heimili sitt til að kaupin gengju eftir.

Þetta rótgróna fyrirtæki hefur átt góðu gengi að fagna á undanförnum árum og tvöfölduðust tekjur þess frá árinu 2011 til 2018 í rúmlega fjóra milljarða króna. Um þá ákvörðun að selja húsið sitt til að fjármagna hlut sinn í fyrirtækinu sagði Bjarney meðal annars:

„Já, við vorum á leigumarkaði í níu ár og fluttum sjö sinnum! Ég mæli ekki með því þegar maður er með sjö börn.“ Ef af byggingu sumarhússins verður ætti að fara nokkuð vel um hjónin og fjölskylduna.

Bjarney og Helgi Rúnar voru valin markaðsfólk ársins 2019 á Íslensku markaðsverðlaununum. Eru verðlaunin veitt þeim einstaklingum sem þykja hafa sýnt framúrskarandi árangur í markaðsstarfi.