Það er um margt merkilegt hvað hugurinn getur farið með okkur á marga og fjölbreytta staði, bjarta sem myrka. Hugurinn er ótrúlega öflugt fyrirbrigði og það getur verið full vinna að hafa á honum einhverja stjórn. Hann fer frekar á flug þegar þú hefur meiri tíma til að láta hann reika og þegar minna framboð er að hafa til að dreifa honum.
Hugurinn er stöðugt að vinna úr reynslu okkar og upplifunum, hann leiðir okkur gjarnan að áföllum í lífinu, ekki síst þeim sem lítið hefur verið unnið úr og gert með. Það geta verið mjög þungar hugsanir þegar lífið hægir á sér og fólk situr heima með sjálft sig og hugann.
Það er ónotalegt þegar hugurinn fær taumlaust frelsi til að rökstyðja allt til verri vegar með nánast engri viðstöðu eða mikilvægum rökstuðningi á móti. Hjálp í þeirri barráttu hefur m.a. fengið farveg í hugrænni atferlismeðferð og gerir sitt gagn við að mæta barráttu hugans í stað þess að flýja hana, flóttinn birtist eins og við vitum ósjaldan í sjálfskaðandi hegðun sem deyfir um stund en verður oftar en ekki að vítahring.
Ég fór að velta þessu með hugann fyrir mér á þrengingartímum eftir að hafa lesið bókina „The Gift“ 12 Lessons to save your Life sem hin ungverskættaða Edith Eger reit í hárri elli sinni. Áður hefur hún sent frá sér „The Choice“ sem er verðlaunabók.
Eger á sér gyðinglegan bakgrunn og unglingsstúlka lifði hún af fangavist í Auschwitz. Foreldrar hennar voru báðir teknir af lífi í fangabúðunum illræmdu daginn sem fjölskyldan var flutt þangað. Eger er kunn fyrir störf sín sem sálfræðingur í Bandaríkjunum og hefur nýtt sér reynslu sína ófáum skjólstæðingum til heilla og blessunar.
Það sem einkum snerti mig við lesturinn er viðhorf hennar til hugans og hvernig hún vekur mann til meðvitundar um marga þá möguleika sem við höfum til að láta hugann vinna með okkur í stað þess að rífa okkur niður. Með skrifum sínum vill Eger síst að lesandinn fari að bera eigin reynslu saman við hennar heldur að hann sé reiðubúinn að hugsa hlutina með þeim hætti að fyrst hún gat unnið með reynslu sína að þá gefst honum sömuleiðis kostur á því. Bókin „The Gift“ skal vera í því sambandi hvatning.
Hver er svo grunnurinn að þessari úrvinnslu Eger sem hefur vissulega ekki verið einfalt verkefni en að sama skapi ekki óyfirstíganlegt? Það er einkum það að dvelja ekki við spurninguna hvers vegna ég heldur hvað svo? Það er mikilvægi þess að festast ekki í huga fórnarlambsins heldur tileinka sér hugarfar þess sem vill lifa af.
Nóttina eftir að foreldrar Eger voru teknir af lífi í Auschwitz var hún sótt og henni fyrirskipað að dansa fyrir framan morðingja foreldra hennar. Þar sem hún stóð berskjölduð táningsstúlka, búið að svipta hana öllu, minntist hún orða móður sinnar að enginn gæti tekið frá henni þær myndir sem hún sjálf kallaði fram í hugann.
Á þeirri stundu lokaði hún augunum og lét hugann leiða sig á hið stóra svið óperuhússins í Búdapest þar sem hún sá sjálfa sig dansa hlutverk Júlíu í ballett eftir Tchaikovsky. Máttur hugans skóp frelsi í annars ömurlegum og niðurlægjandi aðstæðum þar sem hver stund var sem helvíti á jörðu.
Eitt þeirra hugtaka sem er mjög fyrirferðamikið í hugans baráttu er fyrirgefningin. Ekkert okkar fer í gegnum lífið öðruvísi en að hugleiða hana og takast á við hana. Hún getur farið með hugann inn í storm reiði en blessunarlega líka inn í logn sáttar. Mér fannst forvitnilegt að lesa um viðhorf hinnar reynsluríku Eger til fyrirgefningarinnar. Þar minnir hún okkur á að fyrirgefningin sé einkum fyrir okkur sjálf en ekki gerandann. Þannig virkar fyrirgefningin sem frelsandi afl.
Á meðan þú heldur því fram að þú getir ekki fyrirgefið einhverjum þá ertu um leið að eyða orku þinni í það að vera á móti fremur en að vera til staðar fyrir sjálfan þig og öðlast þannig frekar það líf sem þú átt skilið. Það má hins vegar alls ekki skilja fyrirgefninguna þannig að hún sé staðfesting á því að einhver fái sérstakt leyfi til að særa þig áfram því það er aldrei í lagi. En það er hins vegar aðeins þú einn eða ein sem getur fengið sárið til að gróa sem þegar er orðið og er viðfang fyrirgefningarinnar.
Nú þegar staðið er frammi fyrir alvarlegri farsótt sem hægir töluvert á háttbundnum takti tilverunnar þá sækir hugurinn fremur í sig veðrið heldur en hitt. Þá getur verið gott og vekjandi að staldra við og leita í reynslubanka manneskju á borð við Edith Eger. Hún hefur uppgötvað í ljósi reynslu sinnar annan og hollari farveg fyrir hugann en þann að standa fastur í sporum fórnarlambsins og láta spurninguna hvers vegna ég elta sig á röndum. Ráð hennar er að hugleiða tilveruna miklu fremur út frá sjónarhóli þeirrar manneskju sem vill komast af og sér tækifærin í reynslunni. Hugurinn er þinn, og aðeins þinn!