Það hefur komið við kviku margra landsmanna að lesa fréttir síðustu daga um úthlutun listamannalauna. Þetta er árlegt rifrildi en óneitanlega er það vægast sagt ekki gott afspurnar þegar fyrir liggur að sama fólk og velur stjórn sem úthlutar launum til rithöfunda fær allt ársstyrki. Svo ber fólk við þagnarskyldu og allt voða duló.
Ég er ekki í hópi þeirra sem öfunda rithöfunda af því hlutskipti að vera rithöfundar í fullri vinnu. Sölutekjur fæstra höfunda hér á landi eru nokkrar að ráði vegna fólksfæðar og örtungumálsvæðis okkar. Það er meðvitað val flestra af bestu höfundum landsins að kjósa fátæktina, að velja einmanalegt og mjög krefjandi líf sem starf rithöfundarins er. Hæfileikar einir og sér (þótt ríflegir séu) duga ekki til að skrifa góðar bækur heldur þarf líka þrotlausa vinnu til. Ein setning sem breytir lífi okkar lesendanna og fær okkur til að sjá heiminn upp á nýtt getur verið afrakstur áratuga starfs og hugsunar.
Ég er bullandi hlutdrægur í þessari umræðu, því ég hef skrifað sex bækur sem komið hafa út, þar af fimm fagurfræðilegar, ég þekki angistina, hinu þungu leit að útgefanda, ég þekki líka klíkuskapinn sem vitaskuld fylgir tilnefningum, ég þekki líka höfnunina. Margoft sótti ég um listamannalaun frá ríkinu og fékk aldrei. Því hefði kannski verið freistandi að sitja eftir í beiskjunni og segja, fyrst ég fékk ekki, ættuð þið ekki að fá neitt heldur! Og slíkir hafa stigið fram!
En ég sérhæfði mig aldrei alla leið sem skáld. Ég, bóndasonurinn, er of mikill öryggisfíkill til að treysta því að ég og fjölskyldan geti lifað af 330.000 króna mánaðarlaunum í verktöku.
Það er sem sagt út af fórninni, að listamenn velji meðvitað kröpp kjör, sem ég ber (þrátt fyrir allt tal um spillingu) djúpstæða virðingu fyrir þeim höfundum þjóðarinnar sem eru í hópi hinna framúrskarandi eins og jafnan er með listamenn sem ná árangri en kjósa eigi að síður að lifa við smánartekjur.
Alvöru vinna – uuuu já!
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar var frumfluttur í sjónvarpsþættinum Kvikunni í gærkvöld)