Þegar ég var fimm ára var ég tekinn frá mömmu minni vegna þess að hún var ekki fær um að sjá um mig vegna geðveiki og alkóhólisma. Hún var ung og í sambúð með manni sem einnig átti við áfengisvanda að stríða. Oftast voru þau góð við hvort annað. Undir áhrifum breyttust þau stundum í myrkraverur og þá var fjandinn laus. Ég sá hluti sem ekkert barn á að verða vitni að. Og einn daginn leiddi amma mín mig burt frá stóra rauða húsinu í Suðurgötu og kom mér í skjól hjá afa og ömmu í Bolungarvík. Það tók mömmu mörg ár að fyrirgefa ömmu.
Næstu árin fór ég suður til þeirra á jólum og páskum eða hluta af sumri. Oftast var gaman hjá okkur. Við mamma fórum í göngutúra, röbbuðum saman og gáfum öndunum. Stjúpfaðir minn gaf mér BMX hjól, galla og hjálm. Ég ferðaðist um á hjólinu og skoðaði allan bæinn. Ég elskaði þau bæði. Þau reyndu að temja skrímslið á meðan ég dvaldi hjá þeim en stundum misstu þau stjórn á því.
Ég man ekki hvað ég var gamall þegar við bjuggum í húsi einstæðra foreldra í Skerjafirði, en ég man það eins og það hefði gerst í gær þegar móður minni var ekið á sjúkrahús og lögreglubíll renndi í hlað til að sækja stjúpföður minn. Hurðin var læst og hann barði hana að utan en sparkaði henni svo upp þegar mamma neitaði að opna. Ég stóð við gluggann og horfði út en sá ekki neitt og mér fannst höfuðið á mér vera að springa. Hurðin flaug upp og hann æddi inn með höfuðið fullt af myrkri og mamma öskraði þegar hann kýldi hana. Ég leit við í augnablik, skurður hafði opnast í andliti hennar og blóðið fossaði.
Seinna átti þessi maður eftir að hjálpa mér að hætta að drekka og þá aðstoðaði hann tugi unglinga í að ná tökum á lífi sínu. Án áfengis og vímuefna var hann góður maður sem vann brautryðjanda starf þegar hann aðstoðaði tugi ef ekki hundruð unglinga að ná tökum á áfengis- og fíkniefnavanda sínum. Hann hefur bjargað mannslífum með starfi sínu þegar hann rétti þetta unga fólk af og margir foreldrar eiga honum mikið að þakka. Sömu sögu er að segja af móður minni sem hefur gengið í gegnum ýmislegt. Hún hefur margoft beðið mig afsökunar þó það væri engin ástæða til þess. Ég elska mömmu. Mamma mín er góð og ég fyrirgaf henni fyrir löngu. Það tók hana langan tíma að fyrirgefa sjálfri sér. Alltof langan.
Ég tek fram að ég er ekki reiður út í neinn. Móðir mín og fyrrverandi stjúpi minn eru bæði góðar manneskjur sem áttu við veikindi að stríða. Ég hef sjálfur verið í þessu myrkri og upplifað að missa tökin. Sem betur fer eru hlutirnir að breytast. Það gerðu þeir undir stjórn Öldu Hrönn Jóhannesdóttur þegar hún starfaði hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Nú falla heimilisofbeldisbrot undir almenn hegningarlög og að þolandinn þarf ekki að leggja fram kæru. Þá eru öll úrræði nýtt og gerendur fjarlægðir af heimili sínu til að stemma við stigu heimilisofbeldis. Heimilisofbeldisbrot á auðvitað að túlka sem sjálfstætt brot og þolandi á ekki að þurfa að leggja fram kæru. Það á samfélagið að gera.
Samkvæmt tölum Rannsókna og greiningar frá 2018 hafa um 6% drengja og 5% stúlkna orðið vitni að líkamlegu ofbeldi á heimili sínu. Það er tæplega 2% aukning fyrir drengi frá 2012. Í hverri einustu viku eru um fimm til sex börn vitni að því þegar foreldrar beita hvort annað ofbeldi. 40% þeirra þurfa á áfallameðferð að halda. Það eru tvö til þrjú börn í viku. Sem þurfa áfallahjálp. Vegna þess að þau sjá mömmu sína eða pabba lamin. Það er skelfilegt.
Þessi pistill er endurskrifaður og endurbirtur í tilefni átaks Unicef.