Ég þarf oft að eyða miklum tíma í sannfæra fólk um að mínar skoðanir séu réttar. Það tekst alltaf. Finnst mér. Sumir taka því reyndar ekkert vel, en við því er ekkert að gera.
Þeir sem þekkja mig eru búnir að átta sig á þessum hæfileika mínum. Þeir reyna sjaldan að andmæla, skilja kannski ekki alltaf hvað ég á við en að lokum átta þeir sig. Vita sem er að þeir eru ekki jafnokar mínir í réttsýninni.
Erfiðast er að sannfæra fólk í gegnum netið. Sumir þar eru óvenju tregir. Í návígi tekst mér að miklu betur upp. Lækka augabrúnirnar niður undir mið augu, set svolítið í axlirnir og fer þétt upp að viðkomandi. Þá virka rök mín ljómandi vel.
Ég verð að viðurkenna að það vekur mér furðu hvað sumir geta orðið viðskotaillir þegar þeir átta sig á að þeir hafi rangt fyrir sér. Það virðist vera vond tilfinning. Ég þekki hana ekki.
Að hafa alltaf rétt fyrir mér hefur oft sýnt mér skemmtilegar hliðar á tilverunni. Ég hef jafnvel orðið vitni af því sem einfaldir myndu kalla lygilegt en ég kalla undur og töfra. Það eru forréttindi.
Eins og til dæmis þegar ég var á Spáni. Ég benti samferðafólki mínu á eyju sem sást út við sjóndeildarhringinn. Þau gerðu aumkunnarverða tilraun til að andmæla mér og segja eyjuna vera skip. Ég brosti bara góðlátlega.
Um kvöldið hafði eyjan fært sig til.
Ótrúlegt en satt.