Ég er brúnkufíkill, ég verð að vera brúnn. Ég er mjallahvítur á hörund frá náttúrunnar hendi, það er hægt að sjá það undir höndunum á mér og líka á öðrum stað á líkamanum sem ekki er til sýnis. Það tók mig mörg ár að verða brúnn. En eftir að það hafðist hef ég ekki orðið hvítur aftur. Ég hef gert margt til að bæta við brúna hörundslitinn.
Um tíma var rekin sólbaðsstofa í KA-heimilinu, þá var Alfreð Gíslason handboltahetja framkvæmdastjóri KA. Hann undraðist hversu mikið ég gat legið í lömpunum. Til að kanna þol mitt bauð hann mér 10 tíma kort frítt, eina skilyrðið var að ég varð að klára það á einum sólarhring. Það var auðvelt, fimmfaldur tími um kvöldið og svo aftur fimmfaldur um morguninn. Alli bauð mér ekki aftur svona díl, held að hann hafi gert það af umhyggju fyrir mér.
Heimsóknir á sólbaðsstofur voru háðar efnahag hverju sinni og þess vegna hef ég þurft að vera útsjónarsamur við að ná þeim fáu sólargeislum sem að skína hér á okkar landi. Ungur komst ég að því að snjór endurkastar sólargeislum. Á sólríkum degi í byrjun júní þegar ég var 19 ára fékk ég þá snjöllu hugmynd að ganga upp á Hlíðarfjall til að fara þar í sólbað í snjónum, endurkastið af snjónum myndi þannig magna upp áhrifin og ég bæta vel í litinn. Ég fékk far upp í Skíðahótel, klæðnaðurinn var stuttbuxur, bolur og skór, ekkert annað. Áður en ég lagði á Hlíðarfjall greip ég svartan ruslapoka við Skíðahótelið, hugsaði sem svo að hann gæti komið að notum til að liggja á.
Upp á fjallið ég komst, síðustu metrarnir voru talsvert klifur þar sem að snjórinn var farinn úr hlíðunum. Þegar ég stóð á fjallsbrúninni gerði ég mér ljóst að ég yrði að finna mér aðra leið niður, ég myndi ekki þora að klöngrast sömu leið niður aftur. En það voru litlar áhyggjur, gleði mín var einlæg með aðstæður þarna uppi, glampandi sól, ekki ský á himni og snjóþekja eins og augað eygði.
Ég er ekkert gefinn fyrir brókarför, maður á vera allur brúnn, svona eins og hægt er. Ég fór því bæði úr stuttbuxum og bol og svo arkaði ég af stað kviknakinn. Fyrst gekk ég lengi vel á móti sólu til að fá lit að framan, snéri svo við og gekk sömu leið til baka til að fá lit að aftan. Svona spígsporaði ég fram og aftur um sléttuna upp á Hlíðarfjalli. Eftir nokkra klukkutíma fór mér að leiðast. Reyndi þá að leggjast á ruslapokann en það var ansi kalt svo ég stóð upp aftur.
Nú var komið að huga að niðurferð. Ég sá að norður af fjallinu var dalur sem var fullur af snjó, löng nokkuð brött brekka var niður í dalbotninn. Nú kom ruslapokinn að góðum notum. Ég settist á hann og renndi mér af stað, fínt að þurfa ekki að brölta niður brekkuna á fótunum. En ég gerði ekki ráð fyrir hraðanum og færinu. Það var harðfenni í brekkunni og á plastpokanum var ég strax kominn á fljúgandi ferð og missti algjörlega stjórnina á hraðanum. Harðfennið reif fljótlega pokann undan mér og þá voru rasskinnarnar næstar, ég hafði ekki farið í stuttbuxurnar.
Ég stóð upp þegar niður á dalbotninn var komið. Sviðinn í því sem eftir var af rasskinnum mínum var ólýsanlegur, en hann var ekki verstur. Á leiðinni niður hafði íshröngl þrýst sér inn á milli kinnanna og þar áfram þá leið sem hönnum mannslíkamans býður upp á. Ég þurfti að halla mér djúpt fram og verka út íshrönglið sem hafði safnast saman langt upp í skeifugörn. Þetta var ný reynsla.
Ég klæddi mig í stuttbuxurnar og gekk niður hlíðanna í átt að Þelamörk. Neðan við snjólínuna tók við mikil mýri. Ég hafði litla reynslu af mýrum en nú lærði ég það að maður sekkur niður í mýri. Eða öllu heldur sogast niður hana. Ég sökk með annan fótinn langt upp á læri. Náði að koma krjúpa í hinn og þannig krafsa mig upp. En skórinn fór af. Ég reyndi að ná honum upp með höndunum en náði ekki niður.
Niður á þjóðveg komst ég, þar stóð ég á einum skó drullugur upp fyrir haus með blóðtauma niður lærin frá rasskinnunum og reyndi að húkka far. Enginn tók mig upp í. Ég gekk á einum skó í bæinn.
Ég átti erfitt með gang næstu daga, var með blöðrur neðan á öðrum fætinum, að sitja var kvalræði í nokkrar vikur. En ég var dökkbrúnn.