Ég á 10 ára afmæli: gengur mun betur að fyrirgefa sjálfum mér

Dagurinn í dag, sem er reyndar fyrsti dagur vetrar, er mjög merkilegur fyrir mig. Það eru tíu ár í dag síðan ég byrjaði nýtt líf, áratugur síðan ég hætti að drekka.

Ég man ótrúlega vel eftir því þegar ég fór inn á minn fyrsta AA fund algjörlega búinn á því. Þar hlustaði ég á þann sem stýrði fundinum. Sá talaði um að það væri stutt í þriggja ára edrú afmæli sitt. Á þeim tíma hugsaði ég um það hvað það væri langt í burtu frá mér. Ég sá mig satt best að segja ekki í þeim sporum.

Að taka ákvörðunina er stærsta skrefið, að viðurkenna vandann er erfiðast, en mesta áskorunin er að búa til rútínu.

Einn dag í einu án áfengis.

Einn dag í einu í tíu ár hefur mér tekist ágætlega til. Ég hef tæklað hvern dag og tekið á lífinu með öllu sem því tilheyrir, algjörlega án áfengis.

Það er hægt að segja að þessi breyting hafi verið auðveld en hún er það bara ekki. Það koma enn þann dag í dag tímar sem reyna á. Mínir aðal erfiðleikar eru tengdir því að ég vann aldrei úr þeim flækjum sem líf mitt var þegar ég hætti.

Snemma í sumar fannst mér svo vera kominn tími á að vinna aðeins betur í sjálfum mér og gera alveg upp fortíðina. Þegar ég hætti fyrir 10 árum lokaði ég nefnilega alfarið á það sem á undan hafði gerst, ég bara setti tappann í flöskuna, flutti út á land og byrjaði nýtt líf þar.

Ég skildi fortíðina bókstaflega eftir.

Ég fór af stað og leitaði til sálfræðings. Saman köfuðum við í fortíðina og það sem kom þar upp hefur heldur betur hjálpað mér. Ég fékk svör við svo mörgu sem hjálpar mér svo mikið í batanum. Ég skil svo miklu betur ástæðu þess að ég misnotaði áfengið og þannig gengur mér mun betur að fyrirgefa sjálfum mér, sem er grundvöllur þess að ná sátt við sjálfan sig.

Brenglað sjálfsmat og endalaust óöryggi er eitthvað sem maður þarf hjálp við að leysa úr. Bakkus konungur lofaði mér lausnum og í fyrstu tókst honum að breyta mér, litlum andarunga, í risastóran Haförn. En í raun var það eina sem hann gerði var að veita mér falskt öryggi og ennþá meiri flækjur.

Í dag er ég ánægður og þakklátur fyrir þá stefnu sem ég tók og þann stað sem ég er á í dag. Í tíu ár hef ég verið í því að halda rútínunni gangandi. Með því að kafa svo í fortíðina og fá hjálp við að gera hana upp líður mér mun betur og í raun náð í sátt og ákveðna kyrrð. Það er akkúrat það sem auðveldar mér að vera besta útgáfan af sjálfum mér.

Edrú.

Einn dag í einu.