Eftirrétturinn á gamlárskvöld er hápunktur matarársins hjá Önnu Björk

Nú er árið senn að líða og stór dagur framundan á morgun, gamlársdagur. Sjöfn Þórðar spjallaði við Önnu Björk Eðvarðsdóttur, formann Hringsins og matar- og sælkerabloggara um hefðir og siði hennar og fjölskyldunnar í tengslum við síðasta dag ársins, gamlársdag.  Einnig fékk Sjöfn, Önnu Björk til að gefa lesendum uppskrift af eftirrétti sem hún hefur boðið fjölskyldunni uppá á þessum degi.

„Það er alltaf sama spennan hjá mér þegar kemur að eftirréttinum á gamlárskvöld. Hvað á ég að búa til?  Eitthvað úr ávöxtum, eða úr súkkulaði, rjómakennt, heitt eða kalt? Hvernig er matseðillinn uppbyggður og passar allt saman?  Þið kannist kannski við þetta, “ segir Anna Björk.

„En þar sem ég er mjög vanaföst á jólunum, er öllum vana hent út um gluggann á gamlárskvöld og allt er leyfilegt.  Mér finnst mjög gaman að koma fólkinu mínu á óvart og geri aldrei  sama matinn eða desertinn tvö ár í röð. Ég lít á hátíðina sem tækifæri til að skemmta sjálfri mér í eldhúsinu og búa til eitthvað sem er bæði svolítil áskorun og áhugavert.“  Anna Björk segist reyna að passa að það sé helst hægt að búa desertinn til að mestu daginn áður, þó það sé eitthvað smávegis sem er eftir að gera í lokin. Það sé nóg að stússa hvort sem er í mörgu öðru. „Ég hef skammtinn af eftirrétti á mann yfirleitt ekki stóran, af fenginni reynslu.  Maður borðar svo mikið af allskonar góðgæti yfir hátíðirnar, að það er óþarfi að ofgera hlutunum.  Maður vill fá eitthvað sætt, sem gleður augað, en ekki of stóran skammt.  Það er betra er að gera 1-2 auka skammta, ef einhvern langar í meira, frekar en að henda hálfkláruðum stórum skömmtum.“

„Eftirrétturinn á gamlárskvöld er hápunktur matarársins hjá mér.  Hann verður að vera „showstopper“, bæði í útliti og í munni.  Það er svo gaman þegar maður er búinn að búa til eitthvað æðislegt að heyra úuuh-ið og ahhh-ið, þegar desertinn er borinn á borð og fjölskyldan smakkar á honum. Það eru bestu launin eftir allar pælingarnar og vinnuna,“ segir Anna Björk og er þegar orðin spennt fyrir eftirrétti ársins.

Anna Björk segir að þegar Áramótaskaupið er byrjað, sé fjölskyldan við sest við skjáinn, vopnuð sterkum kaffibolla, líkjörsglasi, jólakonfekti og allskonar góðgæti og bíði spennt eftir því að sjá hvernig grínurunum tekst til, þegar þeir gera árinu sem er að líða skil.  „Auðvitað hafa allir sína skoðun á hvernig Skaupið var og það er svo skemmtilegt að hafa vítt aldursbil í hópnum, skoðanirnar verða oft svo ólíkar og það skapar skemmtilegar samræður,“  segir Anna Björk og segir að spennan sé að ná hámarki enda er Gamlársdagur framundan á morgun.

Meðfylgjandi eru uppskrift af ómótstæðilega ljúffengum eftirrétti frá Önnu Björk sem bæði gleður auga og munn. Einnig er hægt að fylgjast með matar- og sælkerablogginum hennar heimasíðunni sem heitir einfaldlega Anna Björk matarblogg:  https://sites.google.com/annabjorkmatarblogg.com/anna-bjoerk-matarblogg/heima

Lime  panna cotta með granateplahaupi og kanilstjörnum

fyrir 4-6

Lime rjómi

6 dl rjómi

1.3 dl ferskur lime safi

150 g sykur

Granatepla hlaup

3  1/3   blað matarlím

3 dl ferskur granatepla safi (ekki úr fernu), um 3 granatepli

50 g sykur

Kanilstjörnur

50 g sykur + 3 msk. 

150 g hveiti

2 tsk. kanell

100 g smjör

Skraut

Fræ úr granatelum

Rósablöð

Lime rjóminn er gerður fyrst.  Rjóminn, sykur og limesafinn eru sett í pott og hitað á meðalhita þar til sykurinn er bráðinn, hrært í á meðan.  Látið malla rólega í nokkrar mínútur, kælt lítillega.  Svo er rjómanum hellt í könnu með góðum stút og síðan í kampavínsglös, kælt aðeins, áður en plastfilma er sett yfir glösin og þau geymd yfir nótt í ísskáp, eða lengur.  Ég hef gert  þetta 2 dögum fyrr. 

Síðan er Granatepla hlaupið útbúið. Fræin eru hreinsuð úr granateplunum (gott að vera með hanska)og þau sett í blandara og maukuð í smástund.  Safinn látinn renna í gegnum fínt sigti og hratinu hent.  Matarlímsblöðin eru látin standa í skál með köldu vatni og látin blotna vel (þau verða eins og hlaup).  Granatepla safinn og sykurinn eru sett í pott og hitað þar til sykurinn er vel bráðinn.  Þá er potturinn tekinn af hitanum og matarlíminu blandað útí þar til það er alveg uppleyst, kælt þangað til það er seigfjlótandi.  Þá er því hellt jafnt yfir lime rjómann og kælt áfram í minnst 3 tíma.  Má gera daginn áður, en passa bara að láta hlaupið stífna alveg í ísskáp, áður en plastið er sett aftur yfir glösin.

Síðan eru það Kanilstjörnurnar.  Ofninn er hitaður í 180°C hita.  50 g af sykri, hveiti, 1 teskeið af kanel og smjörinu er nuddað saman í skál, svo það sé eins og mylsna. Þá er því hnoðað saman í samfellt deig.  Best er að rúlla deiginu út á milli tveggja arka af bökunarpappír.  Síðan eru skornar út stjörnum með kökuskera og bakaðar á pappírsklæddri plötu í 6-7 mínútur., þar til þær eru gylltar, kældar á grind.  Restinni af sykrinum og kanilnum er blandað saman í skál og drussað yfir kökurnar.

Þegar rétturinn er borinn á borð þá er skrautið sett á.  Nokkrum granatepla fræjum er dreift yfir hlaupið í gösunum og síðan rósablöðum.  Glösin eru sett á litla diska og 2-3 kanilstjörnur settar á hvern disk.

Njótið vel.

Myndin af Önnu Björk er tekin af Unni Magna ljósmyndara