Afbrotafræðingur aldrei séð annað eins

Rannsakendur í afbrotafræðinni eru fullvissir um að efnahagsbrot kosta samfélagið margfalt meira en öll strætisbrot til samans, fíkniefnin innifalin. Hvítflibbamenn hafa almennt meiri aðgang að valdastofnunum en aðrir og geta beitt áhrifum sínum m.a. fjölmiðlum og ýtt undir tiltekna sýn á málin en þeir skapa hana ekki.

Þetta segir Helgi Gunnlaugsson, doktor í félagsfræði við Háskóla Íslands, og einn kunnasti afbrotafræðingur þjóðarinnar.

 Um fátt hefur verið meira rætt í dag á vinnustöðum landsmanna en viðtalið sem Ísland í dag birti á Stöð 2 í fyrradag um þrjá af fyrrum toppum efnahagslífsins sem allir tengdust Kaupþingi og sitja nú á Kvíabryggju. Sumir hafa bent á alvarleika brota þeirra og fordæmt efnistök viðtalsins, þar sem gagnrýni og sjálfsæði hafi skort hjá spyrli, jafnvel talað um leiðandi samúðarspurningar líkt og til hafi staðið að draga upp mynd fórnarlambanna af hvítflibbunum á Kvíabryggju sem eru meðal helstu gerenda og sökudólga hrunsins samkvæmt fyrst Rannsóknarskýrslu en nú dómstólum. En fleiri spurningar vakna sem varða afbrot, frávik og samfélag. Helgi Gunnlaugsson brást vel við fyrirspurn Hringbrautar að gefa svör við álitaefnum sem nú er tekist víða um á Internetinu. Birtist viðtalið við Helga í heild hér á eftir:

Hver er munurinn á aðgengi þessara hvítblibba sem Stöð 2 ræddi við í gærkvöld og annarra afbrotamanna að fjölmiðlum og þar með talið e.t.v. skoðunum almennings?

„Fangelsismálastofnun veitir fjölmiðlum leyfi fyrir viðtölum við fanga og það er í sjálfu sér enginn munur á aðgengi bankamannanna og annarra brotamanna samkvæmt lögum. Fangar sem afplána dóma fyrir ofbeldisbrot sér í lagi kynferðisbrot gegn börnum hafa fjölmiðlar þó haft takmarkaðri aðgang að til að hlífa brotaþolum. Stofnunin getur einnig sett reglur um hvernig viðtölunum er háttað og vafalítið veitt leyfi fyrir svona hópviðtali sem ég minnist ekki eftir að hafa séð áður í sjónvarpi. Einnig getur stofnunin hafnað viðtali við brotamenn ef hún telur það andstætt almannahagsmunum – í þessu tilfelli hefur það verið metið svo að viðtalið geri það ekki.“

Ef það er munur á aðgengi fanga að fjölmiðlum og samfélagi og gæti tengst stöðu og fjárhag – má þá spyrja spurninga hvort fjölmiðlar sýni jöfnuð í huga með umfjöllun sinni um sakamenn?

„Hvort fjölmiðlar sýni jöfnuð er snúnara mál að svara og heyrir í raun beint undir þá sjálfa. Fjölmiðlar hafa ekki jafnan aðgang að föngum í reynd þar sem ofbeldismönnum er ekki hleypt að með sama hætti einsog öðrum eins og ég sagði áðan. Ekkert í lögum meinar Fangelsismálastofnun að heimila viðtöl við bankamenn nema að grípa til þess að segja að viðtölin gangi gegn almannahagsmunum en mér finnst langsótt að grípa til þeirra raka. Í raun er örðugt fyrir Fangelsismálastofnun að banna viðtöl við bankamennina frekar en aðra fyrir utan ofbeldismen en hvernig viðtölunum er háttað er annað mál.“

 

Þriðjungur þjóðar telur efnahagsbrot alvarlegust

 

Vanmetur almenningur/fréttamenn það tjón sem varð fyrir samfélagið af glæpum þeirra bankamanna sem dæmdir hafa verið til þungra refsidóma?

„Hvort almenningur vanmetur tjónið er erfitt að fullyrða um. Mælingar mínar á afstöðu almennings til afbrota sýna á síðustu misserum að efnahagsbrot eru álitin af mun stærri hóp en áður vera alvarlegasta afbrotið á Íslandi – eða um þriðjungur þjóðarinnar sem telur svo árið 2015. Áður hafði hlutfallið farið undir 10 prósent . Umræðan í samfélaginu hefur mikið verið á þá leið að tjón okkar vegna efnahagsbrotanna sé gífurlegt og ég held að það sé skynjunin í samfélaginu, reiðin í garð bankamannanna hefur verið nær áþreifanleg. Og niðurstaða Hæstaréttar í málum er varða bankana hefur verið afdráttarlaus og vitnað um stórfelld brot sem áttu stóran þátt í hruni bankakerfisins. Árið 2012 töldu 65% Íslendinga ólíklegt að einhverjar sakfellingar kæmu úr starfi Sérstaks saksóknara – það hefur aldeilis ekki komið á daginn.“

Við höfum líka séð jafnvel þingmenn svo sem Björt Ólafsdóttur hjá BF tjá sig um að hvítflibbaglæpamenn eigi yfirhöfuð ekki að sitja í fangelsi?

„Já, hvort reiðin verði varanleg er svo annað mál. Afstaða þingmannsins að bankamenn eigi ekki að afplána í fangelsi þarf ekki að koma á óvart en hún gengur samt gegn þeirri afstöðu sem hefur verið í gangi í samfélaginu og þeirri miklu reiði sem skapaðist í kjölfar hrunsins í garð bankamannanna. Mér finnst líklegt að draga muni úr reiðinni ekki síst vegna þess að efnahagsbrot virka oft svo abstrakt, milljarðatjón sem við sjáum samt ekki alveg og þolendurna ekki heldur; verður bara einsog reikningsdæmi líkt og Björgólfur Thor sagði, tjónið horfið útí  „money heaven“ eða eitthvað þess háttar.“

Leiðir meðvirkni gagnvart hvítflibbaglæpamönnum oft til mildari dóma og annarrar gerðar af ímyndarskaða fyrir hinn dæmda en þegar dóp og ofbeldi er annars vegar? Ef þú telur að svo sé, eru þá þungir dómar Kaupþingsmanna, þeirra er tjáðu sig í gærkvöld, til vitnis um alvarleika brota þeirra?

„Hvort svona sé meðvirkni er alltaf spurning. Kannski er þetta frekar að eftir að rykið sest eða lætin minnka og við förum að fá meiri fjarlægð á málin þá breytist afstaðan. Ein ástæða þess að hvítflibbabrot hafa aldrei náð fótfestu í samfélaginu sem alvarleg brot er einmitt þessi abstrakt eiginleiki þeirra, við sjáum ekki þolendur og varla gerendur heldur –  tjónið abstrakt líka. Önnur brot einsog ofbeldi og auðgunarbrot eru miklu skýrari hvað þetta snertir. Rannsakendur í afbrotafræðinni eru samt fullvissir um að efnahagsbrot kosta samfélagið margfalt meira en öll strætisbrot til samans, fíkniefnin innifalin. Hvítflibbamenn hafa almennt meiri aðgang að valdastofnunum en aðrir og geta beitt áhrifum sínum m.a. fjölmiðlum og ýtt undir tiltekna sýn á málin en þeir skapa hana ekki.“

Má spyrja hvort það sé siðferðislega rétt að senda út viðtal með þeim hætti sem það var gert í gærkvöld á Stöð 2 án gagnrýninna efnistaka – í ljósi annars þrýstings sem orðið hefur vart í t.d. leiðaraskrifum Fréttablaðsins sem er í eigu manns sem kenndur var mjög við útrás og bankastarfsemi, sem og e.t.v. tengdra aðila?

„Við verðum ætíð að vera gagnrýnin í garð fjölmiðla. Eignarhald og ritstjórn skiptir höfuðmáli. Við sjáum það á fjölmiðlalandslaginu í dag að pólitískir og efnahagslegir hagsmunir stýra meira og minna öllum helstu fjölmiðlum landsins og efnistökin bera þess merki. Áður voru þetta flokkspólitískir hagmunir sem stýrðu dagblöðunum og allir vissu það og enginn fór í grafgötur með tengslin og efnistökin. Tengslin í dag eru duldari en eru samt áþreifanleg í efni þeirra og nálgun varðandi fréttir og fréttaskýringar. Viðtalið á Stöð 2 bar þess hugsanlega merki. Mér finnst samt alveg eðlilegt að sjónarmið bankamannanna komi fram. Í opnu lýðræðissamfélagi eiga öll sjónarmið að heyrast og almenningur, fréttaskýrendur og álitsgjafar meta svo bara boðskapinn hver með sínum hætti.

Verðum að treysta Hæstarétti

Bankamennirnir voru örugglega í verkum sínum að mínu mati að reyna að bjarga stofnunum sínum sem þeir höfðu tröllatrú á. Eignir þeirra voru miklar einsog kom í ljós á brunaútsölum erlendis í kjölfar hrunsins – eignir Glitnis td í Noregi fóru á algera brunaútsölu og hafa síðan verið talin ein mestu reyfarakaup aldarinnar þar í landi! Það er eitthvað bil á milli refsiverðrar háttsemi og rangra ákvarðana – en ákvarðanirnar um lánveitingar til tengdra aðila voru samþykktar af bankanefndum í sumum tilfellum – alls ekki falið og frá þessu greint í fjölmiðlum á sínum tíma þó ekki væri alltaf að fullu ljóst hvernig þetta allt var fjármagnað í öllum atriðum og hverjir stóðu að baki. En ljóst var að þeir fóru útfyrir lagaleg mörk – Hæstiréttur sem við verðum að reiða okkur á hefur verið alveg óvenju afdráttarlaus í niðurstöðu sinni um stórfelld brot þessara aðila. Við verðum að treysta okkar æðsta dómstóli og ganga út frá því að hann standi undir því trausti.“

Viðtal: Björn Þorláksson.