„Ef menn vilja einangrun …“ – orð Bjarna heitins Benediktssonar frá 1969 vegna tengsla við útlönd enn í fullu gildi

Í aðdraganda kosninganna á morgun hafa enn á ný sprottið upp umræður um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu og upptöku evru í stað þess að veðja áfram á íslenska krónu, minnsta myntkerfi í heimi, sem blaktir eins og lauf í vindi. Miðjuflokkar eins og Viðreisn og Samfylking vilja að Íslendingar ákveði sjálfir í atkvæðagreiðslu hvort vilji standi til þess að halda áfram viðræðum við ESB um aðild eða ekki. Þessir flokkar treysta kjósendum og telja ekki við hæfi að stjórnmálamenn eigi að hafa vit fyrir kjósendum í þessu stóra máli. Viðreisn og Samfylkingin aðhyllast ekki forsjárhyggju eins og sumir aðrir stjórnmálaflokkar hér á landi.

Andstæðingar Evrópusambandsaðildar hafa ólmast um árabil gegn viðræðum og auknum tengslum við sambandið. Þeir halda úti sérstökum samtökum, Heimsýn, sem eru einlæg öfgasamtök gegn aðild að ESB og frekari tengslum við útlönd og útlendinga. Hjá þessum samtökum gætir útlendingahræðslu og minnimáttarkenndar við allt sem erlent er og framandi. Heimsýn talar fyrir einangrun. Talið er að rekstur samtakanna sé að mestu kostaður af sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi eða samtökum þeirra og Bændasamtökum Íslands. Heimsýn hafði lengi vel skrifstofu á sama stað og Bændasamtökin á Hótel Sögu áður en samtökin misstu eignina frá sér og þurftu að flytja á brott.

Evrópumálin hafa lengi verið umdeild á Íslandi og valdið talsverðum vandræðum í sumum stjórnmálaflokkum. Ekki síst í Sjálfstæðisflokknum enda hafa síðari tíma forystumenn flokksins ekki haft kjark til að takast á við málin en hrakist undan hótunum þröngra hagsmuna innan flokksins með alvarlegum afleiðingum, eins og kunnugt er.

Átök um tengsl við alþjóðleg samtök eru ekki ný af nálinni í stjórnmálaumræðu á Íslandi. Árið 1969 voru til dæmis mjög skiptar skoðanir um inngöngu Íslands í EFTA. Á endanum var tekin ákvörðun um inngöngu, Íslandi til mikillar gæfu. Um það er tæplega deilt lengur.

Bjarni heitinn Benediktsson, forsætisráðherra, var þá formaður Sjálfstæðisflokksins og lagði þunga áherslu á að Ísland gengi í EFTA. Átök urðu um málið á landsfundi flokksins árið 1969 en þá sagði Bjarni m.a. frægri ræðu:

Ef menn vilja einangrun, þá verða þeir að taka afleiðingum hennar og reyna þá hvorki gagnvart sjálfum sér né öðrum að hræsna með því að þeir séu hinir mestu framfaramenn. Þeir eru þvert á móti menn afturhalds og úrtölu. Einangrunin, sem nærri hafði drepið þjóðina á löngum, þungbærum öldum, er þeim runnin svo í merg og bein, að þeir daga uppi sem nátttröll á tímum hinna mestu framfara. Vísindi og tækni nútímans og hagnýting þeirra er bundin þeirri forsendu, að víðtækt samstarf eigi sér stað. Þess vegna leita jafnvel stórþjóðir samstarfs hver við aðra, jafnt stórar þjóðir sem smáar. Ef stórþjóðunum er slíkt þörf, þá er smáþjóðum það nauðsyn. Auðvitað verður að hafa gát á …….
En eðlilegt er, að almenningur spyrji: Ef aðrir, þeir sem eru okkur líkastir að menningu og efnahag, hafa svo góða reynslu, hví skyldum við þá óttast að reynsla okkar yrði önnur og lakari?

Þessi rök sem Bjarni heitinn Benediktsson flutti fyrir inngöngu Íslands í EFTA á landsfundi flokksins árið 1969 eru enn í fullu gildi sem rök fyrir inngöngu okkar í Evrópusambandið.

- Ólafur Arnarson