Íslensk erfðagreining er stórmerkilegt fyrirtæki. Kári Stefánsson er frumkvöðull og stofnandi fyrirtækisins og hefur rekið það frá upphafi. Vísindaafrek fyrirtækisins hafa vakið heimsathygli. Kári og félagar hans njóta verðskuldaðrar virðingar víða um heim.
Eitt af því sem er athyglisvert við rekstur fyrirtækisins er að það hefur aldrei skilað hagnaði en verið rekið með gífurlegu tapi frá upphafi, talið í milljónum dollara og jafnvel milljónatugum dollara á ári. Fjárfestar hafa ekki látið þetta á sig fá og komið með meira og meira eigið fé að fyrirtækinu til að halda því gangandi til góðra verka. Að vísu hefur þurft að skipta um eigendur til að tryggja viðvarandi fjárstreymi á móti öllu rekstrartapinu.
Þrátt fyrir þennan langvarnadi og samfellda taprekstur þótti Kára og samferðarmönnum hans nauðsynlegt að byggja mikið og veglegt glerhús yfir reksturinn úti í mýri sakmmt frá Háskóla Íslands. Húsið er eitt hið veglegasta á Íslandi, hannað með framúrstefnulegum, flottum, töff og rándýrum hætti. Húsið var mjög dýrt og trúlega leggja menn helst ekki í að reikna út fermetraverðið á þessu glerhýsi. Íslensk erfðagreining byrjaði starfsemi sína í fremur hóflegu húsnæði við Lyngháls 1 þar sem Hans Petersen hf. hafði áður starfsemi sína en nú er rekin þar prentsmiðja. Stökkið úr venjulega húsinu við Lyngháls yfir í glæsihúsið á háskólasvæðinu var því risastórt.
Það kemur því úr allra hörðustu átt þegar Kári Stefánsson stígur fram og birtir langa ásökunargrein í Morgunblaðinu og ræðst gegn áformum stjórnenda Landsbankans um að flytja starfsemi bankans af 16 stöðum í miðborg Reykjavíkur yfir í nýjar höfuðstöðvar sem eiga að kosta 8 milljarða króna en spara 700 milljónir króna í rekstri bankans á ári. Nýjar höfuðstöðvar verða því arðsamar og fljótar að borga sig upp til hagsbóta fyrir eigendur bankans, íslenska ríkið.
Ákvörðun Landsbankans um byggingu þessa húss verður örugglega umdeild. Ýmsir sjá hagræðið og skilja að ekki er gott að reka höfuðstöðvar banka á 16 stöðum. Þeir sjá einnig að jafnvel banka munar um sparnað og þar með bætta afkomu upp á 700 milljónir á ári. Aðrir munu sjá ofsjónum yfir því að banki byggi yfir sig í miðborg Reykjavíkur og þeir eru byrjaðir að gagnrýna. Ekki er sama hvernig það er gert. Víst er að sumir eru betur til þess fallnir en aðrir. Verst af öllu er þegar fólk sem að sönnu býr í glerhúsi kastar steinum úr þeim ranni.
Kári Stefánsson, með fullri virðingu fyrir vísindaafrekum hans, býr því miður í glerhúsi valdhrokans og er því einna vest til þess fallinn að kasta steinum vegna fyrirhugaðrar byggingar Landsbankans. Hann ætti ekki að niðurlægja sjálfan sig með því.
Stjórnmálamenn hafa látið til sín taka í þessu húsamáli. Sjálfur forsætisráðherra koma fram í sjónvarpsviðtali og hafði allt á hornum sér eins og reyndar í svo mörgum öðrum málum. Hann hefur gefið sig út fyrir að hafa mikið vit á húsum og gömlum teikningum eins og fram kom þann 1. apríl sl. þegar hann vildi láta byggja ofan á alþingishúsið samkvæmt gömlum teikningum frá Guðjóni Samúelssyni. Því miður meinti ráðherra þetta. Ekki var um 1. arpíl-gabb að ræða. Ætla má að Sigmundur Davíð vildi helst sjá höfuðstöðvar Landsbankans í Árbæjarsafninu þar sem unnt væri að hafa útibú fyrir Árbæ og Selás í Dillonshúsi.
Kári ætti endilega að láta fara vel um sig í glerhúsi Íslenskrar erfðagreiningar þar sem sparnaður og hagræðing eru óþörf.
Og láta aðra um að kasta steinum.