Ótímabær og illa rökstudd stjórnarslit kalla óþarfa vanda yfir þjóðina í stað þess að nýta þau augljósu sóknarfæri sem einstakur hagvöxtur hefur skapað hér á landi.
Stöðugt er að koma betur í ljós að ákvörðun Bjartrar framtíðar um stjórnarslit var vanhugsuð, byggð á röngum forsendum og tekin í fljótfærni af reynslulausu fólki sem veldur ekki ábyrgðarhlutverkum í stjórnmálum.
Við gætum siglt inn í stjórnarkreppu og stjórnmálakreppu á Íslandi eftir kosningar í næsta mánuði sem gæti staðið yfir í marga mánuði með margvíslegum afleiðingum fyrir atvinnulífið, vinnumarkaðinn og allan almenning.
En er við forystu Bjartrar framtíðar eina að sakast?
Svarið við því er nei. Ef forsætisráðherrann hefði haldið vöku sinni þá hefði hann átt að grípa inn í, hjálpa ráðherrum BF við að leysa málin gagnvart baklandi sínu og koma með lausnir sem hefðu dugað til að halda ríkisstjórninni saman. En Bjarni aðhafðist ekki neitt og horfði á ríkisstjórn sína liðast í sundur með ófyrirséðum afleiðingum.
Hér má rifja upp til samanburðar að vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms sem sat allt kjörtímabilið 2009 til 2013 var nokkrum sinnum við það að springa. En alltaf tókst að afstýra því einkum vegna klókinda og dugnaðar Steingríms J.
Halda menn að Davíð Oddsson hafi ekki þurft að leysa nokkrar krísur í ríkisstjórnum sínum á þrettán árum? Örugglega og hann leysti málin oft án þess að fjölmiðlar fréttu af því.
Það einkenndi ráðherratíð bæði Davíðs og Steingríms J. að þeir voru alltaf í vinnunni, alltaf á vaktinni. Það getur ráðið úrslitum.
Rtá.