Þá fór djöfullinn frá Jesú .
Og englar komu og þjónuðu honum.
Á þessu sumri verða liðin fjögur ár síðan ég hætti að neyta áfengis. Ég fór ekki í meðferð heldur vaknaði bara upp í skelfingu einn ágústmorgunn að áliðnum slætti með hjartslátt í höfði og vissi að nú væri annaðhvort að duga eða drepast. Ég valdi að duga, sem er besta ákvörðun sem ég hef nokkurn tíma tekið. Það er svolítið merkilegt með þessa ákvörðun að hún hefur gríðarleg margfeldisáhrif, í raun miklu meiri heldur en maður hefði að óreyndu nokkurn tíma grunað.
Þegar ég segi að það að hætta að drekka áfengi hafi verið besta ákvörðun lífs míns get ég hæglega fullyrt á sama tíma að hún hafi verið ein sú erfiðasta, ekki þó það að taka ákvörðunina sem slíka, heldur fremur afleiðingum hennar. Á þessum fjórum árum sem liðin eru síðan ég setti tappann í flöskuna hef ég gengið í gegnum einhverjar mestu þrautir lífs míns, þá er ég ekki beint að tala um sorgir, því þær eru fleiri og eldri í fortíðinni, en þrautir hef ég lifað á þessum tíma, meiri og flóknari en áður.
Ég breyttist mikið við að hætta drekka og þegar maður breytist er hætt við því að ekki öllum líki vel við mann, um leið og ég komst í fyrsta skipti í raunveruleg tengsl við sjálfa mig frá fimmtán ára aldri, en þá hóf ég víndrykkju af mikilli einurð og festu, missti ég tengsl og vináttu við fólk sem hafði verið mér lengi samferða.
Því miður er það ein af þessum bláköldu staðreyndum lífsins. Nú þegar ég lít um öxl og rykið af víntappanum tekið að setjast veit ég sem er að þau tengslarof voru ekki einhverjum einum að kenna. Ég hef líka komist að því að ef það er eitthvað sem ég mun aldrei taka upp í stað áfengisdrykkju (og hef ég nú prófað ýmislegt eins og óhóflegt sykurát og reykingar) þá er það fórnarlambshlutverkið, í öllum aðstæðum sem ég hef og mun mæta í lífinu skal ég aldrei og þá meina ég aldrei verða fórnarlamb, af tvennu illu er sennilega skárra að drekka.
Það er nú svo að þegar maður hættir að drekka er maður fyrst um sinn eins og lítill krakki í sundkennslu, að reyna að troða marvaða án kúta, gusugangurinn út um allt og maður nær ekki að fylgjast með hinum í lauginni, sér þá ekki fyrir eigin gusugangi og já gott og vel, kannski er það sjálflægni. Sjálflægni sem er í raun óumflýjanleg vegna þess að það er svo mikil umbreyting á öllum sviðum lífsins, allt í einu þarf maður alltaf að vera edrú, hugsið ykkur!
Hvar og hvenær sem er, ekkert deyfilyf við félagskvíðanum eða að loknum hræðilega erfiðum vinnudegi, ekkert sem hjálpar manni að peppa sig upp fyrir fertugsafmæli vinar eftir að hafa jarðsungið unga manninn fyrr um daginn sem tók líf sitt. Ekkert vín í flugvélinni, bara bíta á jaxlinn og anda sig í gegnum hristinginn. Engin hækja lengur í boði um lífið.
Nú þá er kannski ekki skrýtið að maður verði örlítið sjálflægur um stund;
„hvernig í fjáranum á ég að fara að þessu Guð?“
Og allt í einu hefur maður ekkert rými til að velta fyrir sér viðbrögðum annarra verandi þó manneskja sem hafði áður nánast lifað eftir viðbrögðum annarra eins og flugdreki sem tekst á loft í vindi. Í edrúmennskunni verður maður smátt og smátt að einhvers konar flugdreka sem getur flogið þótt ríki svartalogn.
En svo lendir maður. Fyrsta árið líður í töluverðu harki gegnum öll þau tímamót og viðburði sem maður upplifir í fyrsta sinn án áfengis. Næsta ár er maður kominn á fast land að því marki sem edrúmennska getur verið land, sennilega er hún meira eins og fljótið, stöðug hreyfing, stöðug endurnýjun.
Galdurinn við að gleðjast yfir nýju lífi fylltu af sjálfsvirðingu, auknu jafnvægi og örlítið minni hégóma (ætla ekki að segja minni hroka því það er annarra að dæma um það) en syrgja um leið svo margar breytingar, brostin tengsl, drauma sem aldrei áttu að rætast, er fólginn í því að sjá og skilja að hamingjan er fullkomlega og algjörlega á manns eigin ábyrgð.
Það þýðir auðvitað mjög margt, þýðir að maður þarf alltaf að vera í bílstjórasætinu á þjóðvegi lífsins, sem er alveg áskorun þá daga sem maður vaknar í moðvolgri sjálfsvorkun og biturleika yfir því að hinn og þessi hafi sagt og gert hitt og þetta eða jafnvel ekki aðhafst neitt. Alltaf þegar ég vakna í þessu ástandi hugsa ég um Jesú og freistingarfrásögnina, hvernig hann brást við djöflinum sem bauð honum að upphefja sig í vitundinni um eigin mátt og þannig sæki ég oft og raunar daglega styrk í framgöngu frelsarans.
Freistingarfrásagan hefur oft hjálpað mér að taka skynsamlegri ákvarðanir en mitt eigið vit og greind gæti nokkurn tíma boðað. Guð hefur hjálpað mér að verða edrú og ekki bara að verða edrú heldur halda mér edrú þótt allskonar lífsverkefni hafi freistað mín til falls.
Ef ég ætti ekki trú á algóðan Guð væri ég enn drukkin, með hugmyndir um að ég væri hugsanlega bara nokkuð hamingjusöm og ekkert hefði breyst og ég enn að bíða eftir því að kynnast sjálfri mér, bíða eftir því að elska sjálfa mig, bíða eftir því að verða til, já bíða eftir englunum.