Edda Sif opnar sig um of­beldið í fyrsta skipti: „Ég hef aldrei viljað tala um þetta opin­ber­lega“

Í­þrótta­frétta­konan Edda Sif Páls­dóttir varð fyrir al­var­legri líkams­á­rás fyrir tíu árum síðan. Sam­fé­lags­miðlar loguðu eftir á­rásina og urðu miklar vanga­veltur um hvað hefði gerst í kjöl­farið.

Hún kærði fjöl­miðla­manninn Hjört Hjartar­son fyrir líkams­á­rás árið 2012 en málið fór aldrei fyrir dóm þar sem þau náðu sam­komu­lagi þar sem Hjörtur tók fulla á­byrgð

Í for­síðu­við­tali Vikunnar ræðir Edda Sif of­beldið í fyrsta skipti þar sem hún segir frá á­rásinni og sjálfs­vinnunni í kjöl­farið.

„Ég hef aldrei viljað tala um þetta opin­ber­lega. Fyrst og síðast til að verja sjálfa mig, held ég, því of­beldið var slæmt en um­ræðan reyndist mér jafn­vel enn verri þó að það sé skrítið að segja það,“ segir Edda Sif í Vikunni.

„Ég komst að því þegar ég byrjaði í EMDR-á­falla­með­ferð fyrir einu og hálfu ári að augna­blikið þegar ég hélt að ég myndi deyja var ekki það versta í þessu öllu saman heldur það sem á eftir kom; það sem fólk sagði eða sagði ekki. Fólk vissi ekkert hvað hafði gengið á en gaf sér að það vissi það, þetta var mikið í fjöl­miðlum og rætt manna á milli þar sem ýmis­legt var gefið í skyn en enginn fótur var fyrir,“ bætir hún við.

„Ég lét þetta yfir mig ganga án þess að segja mína hlið og hef gert síðan en það gengur kannski ekki upp að þegja bara og ætlast á sama tíma til að fólk viti og skilji. Og ég væri örugg­lega ekki að tala um þetta núna nema af því að það er fullt af fólki búið að stíga fram með sína reynslu og ég vona að tíðar­andinn sé þess vegna að­eins annar en fyrir ára­tug.“

Hægt erað lesa við­talið við Eddu Sif í nýjusta tölu­blaði Vikunnar hér.