Edda Falak sakar Áslaugu um gaslýsingu: „Við vitum öll hvað læk þýðir.“

CrossFit-stjarnan og áhrifavaldurinn Edda Falak sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og fyrrum dómsmálaráðherra, í viðtali á Rás 1 í dag. Þar gagnrýndi Edda Áslaugu fyrir að hafa lækað Facebook-færslu fjölmiðlamannsins Loga Bergmann þar sem hann hafnaði ásökunum Vítalíu Lazarevu um kynferðisbrot.

Vítalía hafði greint frá kynferðisbrotinu í viðtali í hlaðvarpsþætti Eddu, Eigin konur, og sakaði Loga um þátttöku í brotunum ásamt þremur öðrum áhrifamönnum í íslenska viðskiptalífinu. Í viðtali við mbl.is á föstudaginn hafnaði Áslaug Arna því að læk hennar við Facebook-færslu Loga lýsti neinni afstöðu eða vantrú á frásagnir þolenda og sagðist aðeins hafa viljað sína Loga, sem er vinur hennar, samkennd.

Edda gefur lítið fyrir þessa skýringu Áslaugar. „Þetta er svo mikil gaslýsing að koma fram og segja ,Nei, mitt læk, það er ekki læk heldur bara samkennd.‘ […] Vegna þess að við erum búin að vera á Facebook í mörg, mörg ár, og hún er á mínum aldri. Hún veit alveg hvað læk þýðir. Læk þýðir ‚Mér líkar þessi málflutningur, mér líkar það sem þú ert að segja.‘ Þannig að læk er einhvers konar stuðningur við málflutning þessa manns. Það er ekkert hægt að segja neitt annað.“

Þá segir Edda að það sé vel hægt að læka færslu í hugsunarleysi eða fljótfærni og það megi vel viðurkenna það. „En að taka ekki ábyrgð á því, að segja að þetta sé enginn stuðningur, mér finnst það bara algjört leikrit. Mér finnst fáránlegt að geta ekki bara viðurkennt það. Við vitum öll hvað læk þýðir. Læk þýðir ekkert ‚Ég heyri það sem þú skrifaðir eða ég sé hvað þú skrifaðir.‘ Læk er bara ‚Mér líkar‘.“

Edda segist sér í lagi hafa orðið fyrir vonbrigðum með Áslaugu Örnu þar sem Áslaug hafi sem dómsmálaráðherra komið fram í myndbandsherferðinni „Ég trúi“, sem Edda framleiddi og var gert til að sýna þolendum kynferðisofbeldis stuðning. „Þetta snerist um að styðja og trúa þolendum. Ég gerði öllum fyllilega grein fyrir hvað þetta snerist um. Og það að taka þátt í þessu sem einhverri sýndarmennsku, mér finnst það mjög særandi. Það sáu allir þetta myndband, þetta fékk yfir 150.000 áhorf. Það var mjög flott að vera í þessari herferð. En fyrir hvern? Fyrir hvað? Ég var mjög sár.“