Dýrðlega hnetusteikin ásamt meðlæti sem sælkerarnir elska

Karen Jónsdóttir, sem er þekkt undir nafninu Kaja hjá Matarbúri Kaju á Akranesi er margrómuð fyrir sína dýrðlegu hnetusteik sem mörgum finnst ómissandi að færa upp á fat yfir jólahátíðarnar og njóta. Hnetusteikin nýtur mikill vinsælda og Kaja er sjálf með hnetusteik á hátíðarborðinu á aðfangadagskvöld. Hún segir að matarhefðirnar í tengslum við jólahaldið hafi breyst frá því sem áður var.

Tvíréttað á aðfangadagskvöld

„Hefðirnar eru að mestu horfnar hér áður fyrr var reykt og saltað þrjá daga í röð sem nánast gekk frá manni líkamlega. Í dag reynum við frekar að velja hollari kosti og hafa léttari mat um hátíðarnar. Á aðfangadag er til dæmis tvíréttað hjá okkur reykt og saltað fyrir þá sem vilja og svo hnetusteikin mín. Nú kippi ég bara einni með þar sem Kaja framleiðir hnetusteik fyrir jólin. En hnetusteikina ber ég ávallt fram með sætri kartöflumús, heimalöguðu rauðkáli, hrásalati og eðal sveppasósu.“ Við fengum Kaju til að deila með okkur sínum uppáhalds uppskriftum af meðlæti með þessari dýrðlegu hnetusteik sælkerarnir hafa ástríðu á. En hnetusteikina sjálfa frá Kaju er hægt að kaupa í nokkrum verslunum og einfalda sér matseldina með því að þurfa einungis að töfra fram meðlæti og njóta.

M&H - Matarbúr Kaju Hnetusteikin ljúfa.jpg

Sæta kartöflumúsin

3-4 stykki lífrænar sætar kartöflur

salt eftir smekk

Lífrænu sætu kartöflurnar soðnar í saltvatni í um það bil 25 til 30 mínútur. Best að sjóða þær heilar til að halda bragðgæðum sem mestum. Þegar kartöflurnar eru fullsoðnar er vatninu hellt af og þær afhýddar og settar í blandara. Smakkað til þegar búið er að mauka þær í blandaranum og mögulega bætt salti við eftir smekk.

Rauðkál

1 stór haus lífrænt rauðkál

4 dl reyrsykur

4 dl rauðvínsedik

2 dl vatn

Rauðkálið er skorið í hæfilega bita soðið upp úr lífrænum reyrsykri og rauðvínsediki frá Vigean. En hlutföllin eru smekksatriði en ég sýð rauðkálið aldrei þannig að það verði mjúkt heldur vil ég hafa það aðeins krönsí.

Sveppasósa la Kaja

200 g sveppir

20 g lerkisveppir

1-2 litlir hvítlaukar, smátt saxaðir

1 dós þykk kókosmjólk / rjómi

2 msk. Kaju grillkrydd

Olía / smjör til steikingar

Góð sósa er algjört lykilatriði svo máltíðin heppnist vel. Ég byrja á að steikja sveppi upp úr olíu eða smjöri fer eftir því hvar maður er staddur í matarvals kúrfunni og svo krydda ég með slatta af Kaju grillkryddi. Þegar sveppirnir eru steiktir bæti ég kókosmjólk eða rjóma út í ásamt hvítlauk og lerkisveppum. Læt malla í um það bil klukkustund. Smakka til, gæti þurft meira grillkrydd eða hvítlauk.

*Hnetu­steik­in frá Kaju fæst í Hag­kaup, Mela­búðinni, Nettó, Ice­land, Frú Laugu, Veg­an búð­inni, Gott og blessað, Fisk Komp­aní og Mat­arbúri Kaju á Akra­nesi.

M&H Matarbúr Kaju - Hnetusteikin og meðlæti.jpg