Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir því að ríkið kaupi fasteignir fyrir fimm milljarða króna. Ætlunin er að megnið af þeim fjármunum verði notaðir til að kaupa Hótel Sögu af Bændasamtökunum. Fyrirhugað er að starfsemi menntavísindasviðs skólans, sem nú er til húsa að Stakkahlíð 1 þar sem áður var Kennaraháskóli Íslands, verði flutt í húsnæði Hótels Sögu. Tilgangurinn er sagður sá að flytja sem mest af starfsemi Háskóla Íslands inn á sjálft háskólasvæðið.
Vera má að einhver fengur sé í því að allt starf eins háskóla sé á einum og sama punktinum, þrátt fyrir að við blasi að slíkt eykur enn álag á samgöngumannvirki borgarinnar, sem ekki er á bætandi, en það skýtur skökku við að flytja starfsemi úr húsnæði sem var sérstaklega hannað fyrir starfsemina í húsnæði sem var hannað fyrir allt annars konar starfsemi. Verja á bróðurparti fimm milljarða til kaupa á Sögu en þá á eftir að breyta húsnæðinu til að það henti undir starfsemi menntavísindasviðs HÍ. Til þess þarf að rífa allt út úr byggingunni sem fyrir er og innrétta upp á nýtt. Eftir stendur fokhelt húsnæði, í raun lóðin ein, og ljóst er að hagkvæmara væri að byggja nýtt húsnæði fyrir menntavísindasvið sé ætlunin að færa það inn á háskólasvæðið.
Ennfremur er með öllu óvíst að hægt sé að taka húsnæði, sem að stórum hluta var byggt sérstaklega fyrir hótel- og veitingastarfsemi fyrir 60 árum, og breyta því þannig að það henti undir háskólastarfsemi. Hótel Saga gegnir að auki miklu hlutverki í menningarsögu höfuðborgarinnar á síðari hluta 20. aldar og fyrstu áratugum þeirrar 21. Í hótelinu eru menningarminjar á borð við Súlnasal og Grillið. Menningarminjar samtímasögu okkar og nýliðins tíma eru engu minna virði en þær sem fornleifafræðingar grafa eftir í gömlum rústum.
Hver yrði kostnaðurinn við að breyta Hótel Sögu til að húsnæðið henti menntavísindasviði? Hefur einhver slegið á það? Varla verða þeir milljarðar færri en þeir sem ætlaðir eru til sjálfra kaupanna. Og hvað á að gera við húsnæði menntavísindasviðs við Stakkahlíð? Á að breyta því í hótel? Þetta er sérhæft húsnæði undir menntastofnun.
Áformin um kaup ríkisins á Hótel Sögu bera þess öll merki að vera niðurstaða stjórnarmyndunarviðræðna nýrrar ríkisstjórnar. Framsóknarflokkurinn hefur löngum borið hagsmuni bænda og samtaka þeirra fyrir brjósti. Bændasamtökin, sem eiga Hótel Sögu, hafa um nokkurt skeið reynt að selja fasteignina en gengið illa vegna þess að samtökin hafa skuldsett eignina upp í rjáfur og jafnvel eilítið upp úr því. Enginn einkaaðili er reiðubúinn til að skera samtökin niður úr þeirri skuldasnöru. Nú verður ekki betur séð en að Framsóknarflokkurinn, sigurvegari síðustu þingkosninga, nýti kosningasigurinn til að knýja á um að skattfé verði notað til að bjarga Bændasamtökunum út úr sinni klemmu. Kaup ríkisins á perlu Vesturbæjarins eru dæmigerð pólitísk hrossakaup.
- Ólafur Arnarson