Dýr mundi illugi allur

Fjármálaráðherra ætlar að reyna að rétta félaga sínum Illuga Gunnarssyni hjálparhönd þegar prófkjör nálgast. Illugi er kominn fram með tillögur um að leggja námsmönnum til styrki upp á 3 milljarða króna á ári. Hann vill breyta námslánakerfinu og rétta námsmönnum styrki sem nema þessari fjárhæð.

Hér er á ferðinni dæmigert mál sem stjórnmálamenn koma fram með í aðdraganda prófkjörsbaráttu og kosninga. Það eru skattgreiðendur sem borga brúsann og umræddum stjórnmálamönnum er alveg sama um það, bara ef þeir geta fleytt sér áfram í gegnum kosningar með slíkum gjöfum úr sjóðum almennings. Þetta mál er bara eitt af fjölmörgum sem við eigum eftir að sjá á næstu vikum og mánuðum. Framsóknarmenn eru þekktastir fyrir þetta og svífast einskis þegar kosningar nálgast. Framsóknarmenn innan Sjálfstæðisflokksins hugsa alveg eins. Það veldur vonbrigðum að fjármálaráðherra ætli að leyfa ábyrgðarleysi af þessu tagi. Hann ætlar að rétta Illuga óútfyllta ávísun til að freista þess að sækja fylgi til námsmanna.

Það er ekki góð reynsla af því að afhenda Illuga Gunnarssyni fjármuni, hvað þá óútfyllta tékka. Ferill hans í tengslum við Orka Energy hneykslið sannar það. Lítið hefur verið rætt um það mál að undanförnu en viðbúið er að það verði allt saman rifjað upp í aðdraganda prófkjörs sem fram fer hjá Sjálfstæðisflokknum um mánðarmótin ágúst og september. Fólk gleymir ekki þeim góðgjörðum sem Illugi þáði frá Orka Energy og skýrði ekki frá með réttum hætti í hagsmunaskráningu Alþingis. Hann skipulagði síðan ferð til Kína á kostnað ríkisstjórnarinnar til að hampa hagsmunum þessa fyrirtækis en eigandi þess hafði bjargað honum frá persónulegu gjaldþroti með því að kaupa íbúð hans við Ránargötu á yfirverði og leigja honum síðan. Þannig varð Illugi fjárhagslega háður eiganda Orka Energy.

Þessi saga öll verður rifjuð upp á næstunni. Auk þess er orðrómur um að ekki séu öll kurl komin til grafar og að von sé á meiri upplýsingum um fjármálasukk Illuga Gunnarssonar. Hann gæti átt eftir að verða flokknum dýr. Ekki bara vegna fjárausturs úr ríkissjóði í aðdraganda kosninga heldur einnig út af persónulegum vandræðamálum sem enn eiga eftir að koma upp á yfirborðið.

Ljóst er að í prófkjöri í Reykjavík mun Illugi Gunnarsson eiga mjög á brattann að sækja, rétt eins og Hanna Birna sem hrakin var úr ráðherraembætti. Vitað er að Ólöf Nordal, varaformaður, á fyrsta sætið víst. Þá hlýtur Guðlaugur Þór Þórðarson að bjóða sig fram í annað sætið sem gefur þá stöðu að leiða lista. Verði Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn eftir kosningar eiga þeir sem leiða lista mesta möguleika á ráðherrasætum en aðrir nær enga möguleika eins og dæmin sýna. Ef Hanna Birna og Illugi bjóða sig bæði fram í annað sætið, þá munu þau þurfa að glíma við Guðlaug Þór sem er með sterkt bakland í borginni og hefur ekki klúðrað sínum málum eins og þau hafa bæði gert. Guðlaugur mun trúlega hafa sigur og leiða lista.

Þá verður staða Illuga og Hönnu Birnu vægast sagt vandræðaleg. 

Talið er að þingmennirnir Brynjar Níelsson, Birgir Ármannsson og Sigríður Andersen muni öll sækjast eftir endurkjöri. Þau eru öll lögfræðingar eins og Ólöf. Þá er talið að úr hópi ungra flokksmanna komi tveir laganemar til með að reyna fyrir sér. Því gæti orðið mikil lögfræðingaslagsíða á listanum eins og æði oft hefur gerst hjá Sjálfstæðisflokknum í gegnum tíðina. Sjálfstæðisflokkurinn þrengist sífellt meira. Flokkur lögfræðinganna en ekki flokkur fólksins.