Dvergar með mikilmennskubrjálæði

Hvenær ætla Íslendingar að horfast í augu við þá staðreynd að við erum smáþjóð með einungis 350.000 íbúa? Við látum stundum eins og við séum milljónaþjóð. Skýringin á þessu er minnimáttarkennd íbúa dvergríkis sem brýst út sem mikilmennskubrjálæði.

 

Nýjasta dæmið um þetta er erindi sem forsvarsmenn Handknattleikssambands Íslands og Körfuknattleikssambands Íslands sendu borgaryfirvöldum í síðasta mánuði með einfaldri pöntun. Ríki og borg eiga að nú að reisa milljarðahöll yfir inniíþróttir því þessi sambönd telja að Laugardalshöllin sé ekki nógu stór og ekki nógu flott fyrir inniíþróttir. Höllin hefur þjónað okkur vel í meira en hálfa öld og hún getur alveg haldið því áfram með viðeigandi lagfæringum og aðlögun að nýjum kröfum og tækni.

 

HSÍ og KKÍ tala um að Höllin taki ekki nema 2.300 manns í sæti og að betra væri að geta boðið upp á aðstöðu með 5.000 sætum. Spyrja má hve oft er uppselt í Höllina á ári þegar háðir eru landsleikir eða aðrir stórleikir í handbolta eða körfubolta. Skyldi það vera einu sinni á ári í hvorri íþrótt – eða jafnvel aldrei?

 

Ný íþróttahöll kostar marga milljarða króna, jafnvel 6 til 8 milljarða. Hver á að borga það? Jú, samböndin beina erindinu til ríkis og Reykjavíkurborgar sem eiga að fjármagna þetta. Það eru skattgreiðendur sem eiga að borga þennan brúsa. Íslendingar verða nú að vara sig á að falla ekki í sömu gryfju og þeir féllu í árin 2006 og 2007 í aðdraganda Hrunsins. Þá var farið á eyðslufyllirí sem endaði með því að þjóðin flaug fram af hengifluginu. Það eru minna en 10 ár síðan við fórum fram af. Eru allir búnir að gleyma því?

 

Laugardalshöllin mun duga okkur vel næstu áratugina með viðeignadi endurbótum og lagfæringum. Við þurfum ekki á neinu fjárfestingarslysi að halda í Laugardalnum. Gætum okkar á heimtufrekum hagsmunaaðilum og gætum okkur á loforðaglöðum stjórnmálamönnum – einkum og sér í lagi þegar stutt er til kosninga.

 

Rtá.